laugardagur, febrúar 17, 2007

Veruleikaflóttinn

“Ordinary life is so dull that I get out of it as much as possible”
-Steve Jones, Sex Pistols

Eins og það er leiðinlegt að hlusta á fólk tala um drauma er það ólíkt skemmtilegra að dreyma. Það að dreyma einhverja algjöra steypu jafnast á við gott fyllerí með félögunum - mínus samviskubitið. Þú mátt gera allan árann af þér. Fá útrás fyrir það sem þú þorir ekki að gera dagsdaglega. Freud sagði það, ekki ég.

Eins og það er leiðinlegt að vakna timbraður er oft stórfínt að vera ölvaður. Losa um stressið og leyfa sér smá kæruleysi. Njóta augnabliksins. Segja hluti sem maður segir ekki dagsdaglega. Vera fullur. Ekki benda á mig, Baudelaire var alltaf að tala um þetta.

Eins og fréttatíminn er alltaf stórkostlega niðurdrepandi er skáldskapur oft stórskemmtilegur. Að lesa og skrifa, búa sér til heim utan raunheims. Að upplifa drauminn frekar en að upplifa vonbrigðin. Laxness tönnlaðist á þessu.

Hvað er þá eftir? Jú, mér finnst reyndar ís góður.

How do you like Iceland?

“When I see the 5 o’clock news
I dont wanna grow up
Comb their hair and shine their shoes
I don’t wanna grow up”

Fyrst misnotuðum við langt leidda fíkla í Byrginu. Svo reyndum við að misnota börn í beinni í Kompási. Börðum unga drengi í Breiðavík og misnotuðum. Lömdum líka stráka á unglingaheimili í Kópavogi. Skelltum svo bara skuldinni á einhverja ráðamenn sem hlutu ráðherraembætti fyrir korteri.

Stórgóð æfing í að líta undan og blístra sakleysislega út í loftið. Okkar vörumerki. Færri fréttir af dauðsföllum í Írak á meðan.

þriðjudagur, febrúar 06, 2007

Andlegt þróunarland

“Put your hands up in the air,
put your hands up in the air.
Put your hands up in the air,
put your hands up in the air.”


Þegar ég sé myndir af fólki í þriðja heiminum, hungruðu og vesældarlegu, verð ég oft fullur samúðar og líður beinlínis illa yfir hlutskipti þeirra.

Ég veit að það er fordómafullt og ljótt að segja þetta (af mjög mörgum ástæðum) en þessi tilfinning dúkkar einnig upp þegar ég heyri af fólki sem hlustar í alvörunni á Scooter eða viðlíka þriðja flokks tónlistarmenn.

föstudagur, janúar 19, 2007

Óbragð á Dominosöld

Við Íslendingar erum steinhættir þrælahaldi. Það eru alveg 177 ár síðan við hjuggum síðasta hausinn af einhverjum (nú stútum við bara mannorði og orðspori með slúðri, svæsnum fréttum og vídjómyndum á netinu). Við erum hætt að éta úr öskum. Ferðumst með flugvélum en ekki knörrum. Búum ekki í moldarkofum heldur stórum, upphituðum íbúðum.

En af einhverjum óskiljanlegum ástæðum étum við enn skemmdan og illa lyktandi mat í janúar og febrúar. Og þó Þorrabjórinn sé bragðmikill lagerbjór með góðri fyllingu er ég enn fokking svangur.

mánudagur, janúar 15, 2007

Afi gamli sagði stundum sögur

Alltaf er þessi bolti eins.

Við höldum að okkar menn séu öllu vanir og klárir í slaginn. Komnir af fornhetjum sem hentu atgeirum í fornöld sem og sterkbyggðum bændum sem unnu ótrúleg erfiðisverk auk þess að berja alla niðursetningana og taka stundum netta bændaglímu. Okkar menn eru afkomendur Grettis sterka, Egils, Gunnars og Gísla Súrssonar (nema reyndar allir útlendingarnir í liðinu). Atgeirinn reyndar eftir heima en leðurtuðrurnar litlu sannarlega með í för. Og hetjurnar okkar eru sko ekkert að verpa eggjum með þessum skopparaboltum og hvað þá að fara í höfðingjaleik. Nei, þeir eru bardagamenn. Heimsklassaspilarar allir með tölu. Hvílíkir menn! Hvílíkar hetjur! Strákarnir okkar!

En illu heilli kemur að því að bölvaðir klumparnir klúðra þessu enn einu sinni.

Verða alltaf voða þreyttir í síðustu leikjunum. Bara úthaldslítil grey í kjánalegri íþrótt sem er svo kjánaleg að flestar skynugar þjóðir nenna ekki að stunda hana. Enda eru höfðingjaleikur og að verpa eggjum mun vinsælli leikir á heimsvísu. Og þá sér maður fyrir alvöru úr hverju þessi himpigimpi eru gerð. Ekki rassgat strákarnir okkar. Þetta eru strákarnir þeirra Gaupa, Eggerts Þorleifs, Atla Hilmars og kellingarinnar í Allt í drasli. Svo fámenn erum við að við þekkjum fjölskyldur þeirra betur en liðin sem þeir spila fyrir.



Íslenski stuðningsmaðurinn er geðklofi. Fagnar og formælir mönnum eftir því hvort tuðran fer í stöng og inn eða stöng og út. Vill ekki að menn geri bara sitt besta og sjái svo til. Það er bara Valgeir Guðjóns sem talar svoleiðis. Íslenski stuðningsmaðurinn vill vinna ellegar að vera fyrstur að finna skúrkana sem ollu tapinu. Vera fyrstur að benda á bjálfana sem klúðruðu mestu.

En það er líka á þeirri stundu sem hinir sönnu bjálfar koma í ljós. Það eru þeir sem benda. Og enginn þeirra getur útskýrt hvað ólögleg blokkering er.

Ég get varla beðið eftir vitleysunni. Ætla að blóta og benda og fagna eins og bavían eftir því sem á við.

föstudagur, desember 29, 2006

Állög

“Vertu ekki að plata mig,
þú ert bara að nota mig.”


Í fyrsta lagi er bara alls ekki við hæfi að gefa hugsandi fólki disk með Bó Hallcan í jólagjöf. Ekki undir neinum kringumstæðum.

Í öðru lagi kemur eftirfarandi textabrot fram í laginu ‘Í útvarpinu heyrði lag’ sem einmitt er á plötunni sem Alkanistar gáfu Hafnfirðingum:

“Lá-lá-lá-lá-lá-lá-lá-lá-lá-lá-lá-ú-ú-ú – Twinkle little star”

Ef þetta lag er leikið afturábak heyrist hins vegar:

“Rats elttil elkniwt – ú-ú-ú-ÁL-ÁL-ÁL-ÁL-ÁL-ÁL-ÁL-ÁL-ÁL-ÁL-ÁL”

Rist og Straumsvíkingar mega skammast sín.

...

Ég vil að lokum nota tækifærið og þakka krökkunum á Dominos fyrir fallega jólakveðju. Hrói og Papinos mega stinga sínum pítsum í rassvasann á sér.

Heimski vanþroski

“I know we've come a long way,
We're changing day to day
But tell me where do the children play”


Ég fékk margar fínar jólagjafir en sú sem stendur klárlega upp úr er apahúfan. Þetta hræðir mig nokkuð í ljósi þess að þjóðskrá segir mig 25 ára gamlan.

Jólaguðspjallið

Sagan af fæðingu Jesú er klassík. Ekki skrýtið að fólk rifji hana upp á hverjum einustu jólum. Guðspjallið tekur á eilífðarspurningum sem eiga ávallt rétt á sér. Spurningum eins og: Hvað er aftur mirra?

The drugs don’t work

Ég fyrirlít ekkert meira en dópista. Fólk sem kýs að sprauta eitri í æðar sínar. Oj. Mínar hetjur eru af öðrum toga. Þann flokk skipa íþróttamenn eins og Diego Maradona og alvöru músíkmenn eins og Keith Richards og Hendrix. Svo ekki sé minnst á rithöfundinn Irvine Welsh sem skóp mína eftirlætissöguhetju; Mark Renton.

Thank you for the music

Á árinu 2006, sem senn er liðið í aldanna skaut og aldrei kemur til baka og sérhver er gengin þess gleði og þraut og það, fór ég á nokkra konserta.

Í júlí sá ég hin skosku undur, Playtones, á skítugum pöbb í Edinborg. Þeir eru sagðir næstu stórstjörnur hálandanna og alveg flennifínir satt að segja.

Í nóvember sá ég hinn vængjaða Sufjan Stevens frá Amerikistan. Hann söng í kirkju og var þrumunettur. Eiginlega kengmagnaður.

Í september sá ég Nick Cave spila í höll. Það var í fyrsta sinn sem ég sá mann með mottu sem hélt kúli fullkomlega. Ótrúlegir tónleikar.

Í maí sá ég Raymond Douglas Davies spila í kvikmyndahúsi. Gaurinn var rugl. Brilleraði með bjánaglottið framan í sér allan tímann. Vel hugsanlega skemmtilegustu tónleikar sem ég hef séð.

Í kvöld fer ég á útgáfutónleika Jóa Skag. Jói er eins konar endastöð á eftirminnilegu tónleikaári, sá ári. Hann er jafnframt eini maðurinn sem getur steypt Ray Davies af stalli sem tónlistarviðburður ársins. Ég bíð spenntur.

sunnudagur, desember 24, 2006

All I want is the truth, just gimme some truth

Hreinskilni er dyggð. Konur vilja hreinskilna menn. Þær segja það oft í blaðaviðtölum og sögðu það oft í Djúpu lauginni (það felst gríðarleg hreinskilni í að viðurkenna að hafa horft á Djúpu laugina).

Hreinskilni maðurinn er hins vegar ekki til. Til að fúnkera dagsdaglega þarf maður að bæla niður tilfinningar. Halda allri hreinskilni í skefjum. Vera kurteis og þolinmóður. Taka tillit til annarra. Passa að ganga ekki of langt. Ekki særa aðra og ekki segja hluti sem koma seinna í bakið á þér. Halda fólki góðu.

Lygar eru hins vegar dagleg rútína hjá okkur öllum. Að segja ekki allan sannleikann nema þegar það hentar. Að segja nákvæmlega það sem veldur ekki leiðindum eða veseni. Þetta fattaði ég í kvöld þegar ég spjallaði við fimm ára mann um jólasveininn. Ég laug fyrst aðeins að honum og svo sagði hann mér af sinni barnslegu einlægni allar lygarnar sem aðrir höfðu sagt honum. Í hreinskilni sagt leið mér mjög illa meðan á þessu stóð.

Ég veit ekki með ykkur en ég er hættur þessu bulli. Héðan af ætla ég að vera hreinskilinn. Hreinskilinn alltaf og allstaðar. Hvergi verður dregið undan. Næsta færsla verður um þegar ég meig undir í september.

þriðjudagur, desember 19, 2006

Two Princes

“Prince Charming, Prince Charming,
ridicule is nothing to be scared of”


Einn minn eftirlætis æringi og ættingi, Jói Skag, er nýkominn frá Lundúnum. Eins og sannur túristi lét hann götulistamann teikna mynd af sér og spúsu sinni, Bryndísi. Myndin lítur svona út (vona að ég brjóti engin höfundarréttarlög með því að vísa á hana):

Téð mynd

Ef einhverjum þarna úti finnst Jói (sem er til hægri á myndinni) ekki líta nákvæmlega út eins og Prince á þessari mynd mun ég velta mér upp úr tjöru og fiðri og hlaupa um Smáralindina drekkandi hreinsivökva að kvöldi Þorláksmessu.

Að lokum er ef til vill við hæfi að benda á tónlistarsíðu hins íslenska poppprins.