Króka-Refur skaffar kaffið
Ég er hafinn að stúdera íslensk fræði við háskólann á ný eftir misserisbríarí í öðrum skóla. Hélt af stað með pjönkur á priki á mánudaginn og hóf að sækja tíma. Reyndar sjaldan litist eins vel á framhaldið í upphafi annar og nú. Lenti m.a. í kennara sem hlóð bloggsíður lofi og smellti því verkefni á viðstadda að stunda dagbókarskrif. Og það jafnvel í formi bloggs. Geri ég það kvendi ábyrgt fyrir þessu síðuræksni.
Hlotið hef ég skrautlegan sessunaut í þessu námi mínu sem ég hef lengi eldað grátt silfur við. Hann er reyndar ekkert að fara hamförum þessa fyrstu daga enda telja einhverjir kennarar hann vera skiptinema. Hann er bara það góður í íslensku. Kaffiveðmál hafa einkennt sambúð okkar og hófst fyrsta umferð æsilegrar baráttu um bollana í dag. Vill svo til að meðal samnemenda okkar í einu faginu eru tveir frægir nagghundar sem stunda það að grípa fram í fyrir kennaranum og spyrja tilefnislausra spurninga. Hefur annar hlotið viðurnefnið Spaðinn í flimtingum og þykir konungur þessarar íþróttar. Hinn væri frekar krónprins, enda yngri, og er oft nefndur Króka-Refur vegna klækja sinna. Fór svo að ég veðjaði á að Króka-Refur ætti fleiri tilefnislausar athugasemdir í tímanum í dag en veðjaði sessunauturinn á Spaðann af gömlum vana. Fór fram hressilegasta viðureign sem endaði á sigri míns manns, Króka-Refs, og hlaut ég kaffibolla að launum. Endaði rimman 7-6. Saga kaffiveðmálanna er reyndar forn en tel ég þau örva mann til að mæta í tíma og valda því að maður er yfirleitt við fulla heilsu.
Jómfrúarfærslu er hér með lokið en vænti ég merkilegri skrifa í kjölfarið.
<< Heim