Skaðsemi jólaballa
Á jólum fer ég á svokallað Jólamót. Jólamót í fótbolta. Með kumpánana sem ég þjálfa. Átta og níu ára. Syni FH. Dvaldi langtímum saman á mótinu nú milli jóla og nýárs og þegar slíkt er uppi á teningnum fylgja ávallt súrar sögur. Verst er að maður man þær aldrei allar en hér er þó léttur smjörþefur...
Var með þétt d-lið sem vann mótið. Unnu sinn riðil og léku því í undanúrslitum. Ákveðin spenna setti mark sitt á strákana í þeim leik enda vissu þeir að úrslitaleikur var í húfi og því voru fagnaðarlætin mikil þegar leiknum lauk og ljóst að þeir höfðu unnið. Fagnað var út um allar trissur og þegar ég náði loks að hóa hjörðinni saman í 'hringinn' voru félagarnir á þeim buxunum að taka óleóleóleóle-ruglið á þetta. Ekki vildi betur til en svo að einn kappinn, sem líklega hefur óverdósað á jólaböllum þetta árið, byrjaði að emja 'Adam átti syni sjö' svo glumdi í húsinu. Hefur trúlega verið að leita að 'óleóleóleóle' í orðasafninu en ekki fundið það í sigurvímunni. Tveir aðrir muldruðu þennan sigursöng lágt með þar til meistarinn fattaði hvað hann var að syngja og snarþagnaði. Tók við vandræðaleg þögn þar sem allir litu í gólf nema ég sem hló svo sást í kok. Aldrei var þessi neyðarlegi atburður ræddur eftir þetta.
Verst að svona mót líða alltaf svo hratt að ég gleymi alltaf mesta ruglinu í lærisveinum mínum. Maður þyrfti að fara að safna þessu saman. Ólýsanlegir hlutir sem gerast t.d í 'hringnum'. Fékk einu sinni "ég elska þig Krissi, en ég er samt enginn hommi" frá sjö ára gutta og "veistu Krissi, myndböndin hjá Eminem eru alltaf bönnuð". Er ennþá að vinna úr þessum athugasemdum.
<< Heim