þriðjudagur, janúar 18, 2005

Listin að blogga

Þessari síðu er ætlað að halda utan um skrif mín fyrir áfanga í skólanum sem heitir Textagerð. Ég þarf að rita sextíu færslur fyrir annarlok og samkvæmt grófum útreikningum mínum þarf ég að rita hugsanir mínar annan hvern dag. Illa hefur gengið framan af. Útheimtir frjósama hugsun.

Einu sinni tók ég þó þátt í bloggi ásamt félögum mínum og átti sjaldan í vandræðum með að finna eitthvað að skrifa um. Enda snerust skrif mín að nær öllu leyti um að lítilsvirða vini mína. Sem var reyndar eins og lautarferð þar sem þeir liggja flestir allvel við höggi. Samt frekar ódýr, léleg og óþroskuð lausn. Nú reynir hins vegar meira á að finna eitthvað merkilegt til að þrasa um.

Blogg er nefnilega yfirleitt mesti sori. Snýst að því er virðist í flestum tilvikum um að lýsa hversdagslegum hlutum eins og hvað fólk fær sér ofan á brauð, hvaða sjónvarpsþátt það glápir á og hvenær það vaknar á morgnanna. Þá er nú betri afþreying að skoða gott klám. Eða lélegt klám ef því er að skipta. Ég vona að ég þurfi aldrei að lýsa svona hversdagslegum hlutum. Vona að ég nái frekar að rita gáfulega um mikilvæg málefni. Koma með snjöll innlegg í umræðuna. Og ef það klikkar kann ég ýmsar heimskulegar sögur af fíflunum vinum mínum. Ég er að segja það, þeir eru algjörir hálfvitar.