Sagan af ölreifa, sænska morðingjanum
Þegar ég var sextán vetra iðkaði ég þá list af kappi að elta leður íklæddur hnésokkum. Þetta gerði ég ásamt félögum mínum í Fimleikafélagi Hafnarfjarðar. Eitt sinn atvikaðist það að við boltadrengir lögðum í æfingaferð til Portúgals þar sem aðstæður voru allar til fyrirmyndar. Ég man að ég var á yngsta ári í flokknum og með óreyndari mönnum. Æfingarnar gengu ágætlega og ákváðu menn því að sletta eilítið úr klaufunum síðasta kvöldið. Dreyptu margir á áfengi, urðu sótölvaðir og þegar herja átti á skemmtistaðina var hópurinn tvístraður. Einhverjir fóru á dansiball með Luis Figo og aðrir fóru að gera sér dælt við útlenskt kvenfólk. Ég var hins vegar í tómu rugli. Fyrir utan einn staðinn sá ég ellilegan rokkhund sem minnti mig svolítið á Rod Stewart. Tók ég hann tali og kom í ljós að ungur maður hafði reynt við hann inni á staðnum og því var kappinn bálreiður og ætlaði að finna annan og betri stað til þess að þamba bjór á. Við fórum að ræða músík og tjáði hann mér að hann væri bæði saxófónleikari og bassaleikari og hefði spilað með Gary Moore og Thin Lizzy. Sagðist einnig vera sænskur. Ekki skil ég hvernig hann nennti að hanga með mér en við leituðum allavega mikið að pöbb en fundum engan. Þá sagðist hann eiga heima rétt hjá og að hann myndi bara bjóða mér upp á vín heima hjá sér. Grandalaus um framvindu mála þáði ég það boð. Þegar heim var komið var gaurinn orðinn drullufullur. Ekki leið á löngu þar til hann fór að segja mér sögur af 21 árs konu sinni sem var heima í Svíþjóð. Sjálfur var kauði svona 45 ára. Að endingu nennti hann ekki að skafa utan af öllu saman, glennti vegabréfið sitt framan í mig og spurði: “Er þetta nokkuð líkt mér?” Ég svaraði að þetta væri svolítið líkt honum þó þetta væri greinilega ekki hann. Þá tjáði Svíinn mér að þetta væri bróðir hans og hóf að lýsa því þegar konu hans hafði verið nauðgað í Svíþjóð fyrir ári síðan. Hafði hann tekið sig til og drepið þann sem nauðgaði henni, fengið vegabréf brósa og stungið af til Portúgals. Ölæði og um leið einlægni mannsins var það mikil að ég var ekki í nokkrum vafa um að hann væri að segja satt. Eins og hendi væri veifað rann af mér enda ég næstum lamaður af hræðslu. Eftir að hafa spjallað í smástund í viðbót leit ég flóttalega á klukkuna og kvaddi. Leysti hann mig út með gjöfum, einhverjum steinum sem hann fann á ströndinni og strandvarðajakka sem hann hafði stolið á fylleríi.
Í heimsku minni skildi ég strandvarðajakkann eftir á hótelherberginu mínu áður en við fórum heim. Held ég sé búinn að týna steinunum. Eftir stendur því einungis súr atburður sem ég myndi sennilega ekki trúa að væri sannur hefði ég ekki upplifað hann sjálfur.
<< Heim