fimmtudagur, janúar 20, 2005

Njáluskidsófenía

Ég er andlega heilsutæpur þessa dagana. Í ójafnvægi á löngum köflum. Ástæðuna rek ég til óhóflegs lesturs á fornsögum. Hef í tengslum við skólagöngu mína sokkið á bólakaf í rit eins og Króka-Refs sögu og Njáls sögu. Finn hvernig mín persóna og sögupersónurnar eru smám saman að renna í eitt. Langar oft að hrópa eins hátt og ég mögulega get fleygar setningar eins og: ”Eigi þarft þú að líta á, af er fóturinn” og “tröll hafi vini þína alla!”. Þori því samt ekki. Ég hata t.d. eindregið og innilega helstu óvildarpúkana í sögunum og mig langar helst til að reka atgeir gegnum þá miðja, kveða um þá níðvísu um leið og ríða svo á Hlíðarenda til vistar og éta þar súrbít með Gunnari og Kolskeggi. Þar myndum við hlæja þrír saman um leið og við brýndum vopn okkar og allt í einu myndi Gunnar klappa mér föðurlega á öxl og segja: “Munt þú vera hinn vaskasti, heilráður og vel vígur og skalt því bera nafnið Víga-Kristmundur”. Myndi ég brosa til hans og vera hinn hreyknasti með viðurnefnið.

Er samt að spá í að rita eina loka Íslendingasögu. Héti hún Íslendinga saga hin síðasta og væri eins konar uppgjör. Smá “greitest hits” jafnvel. Myndi ég tefla fram Gunnari, Kára og Njálssonum, Gretti sterka, Króka-Ref (bara upp á fúttið), Gísla Súrssyni, Agli Skalla og fleiri hetjum og þeim að baki stæðu Snorri goði og Njáll. Saman mynduðu þeir fóstbræðralag og sameinuðust gegn helstu óvættum Íslands, blóðþyrstum mávum með litla, hvassa gogga er reyndu að útrýma landsmönnum. Sé fyrir mér sagnabrot:

Grettir mælti: “Sjá, þeir ögra oss með saurlosun, bleyður þær og ómenni. Blóðga skulum kvekind þau”.
Gunnar svaraði að bragði: “Lát þá eigi reiðast en hunsaðu mávinn heldur. Skammlyndi og reiði er það sem hann sækir. Skulum vér aldreigi hopa og sjálfir sömu klækjum beita”.