Starf knattspyrnuþjálfarans er hið erfiðasta
Tvisvar í viku þjálfa ég 8. flokk drengja í fótbolta. Þeir drengir eru svona 5 ára gamlir. Oft ansi skrautlegar æfingar. Þarna eiga sér stað atvik sem eru bæði helfyndin og bara fáranleg. Nú nýlega var nýr kappi að bætast við í hópinn og hefur verið að slá rækilega í gegn. Strax er það orðið að föstum lið að er hann mætir á svæðið heilsar hann og spyr mig: “Frá hvaða landi ert þú?” Svarið hef ég ávallt haft á reiðum höndum en samt dynur spurningin aftur á mér á næstu æfingu. Einnig á hann til að kveinka sér óhóflega þegar kemur að sjálfri knattspyrnunni. Tvívegis hefur hann talið að hann væri fótbrotinn en sem betur fer kom í ljós við nánari eftirgrennslan að svo var ekki.
Botninn tók þó úr í dag. Sjálfur var ég reyndar lítið með kauða á æfingunni þar sem við skiptum öllum hópnum í tvennt og tekur Hemmi, hinn þjálfarinn, ávallt helming pilta að sér. Engu að síður lentum við á spjalli eftir æfingu sem endaði á því að hann kvaddi skyndilega og vildi eindregið kveðja okkur Hermann báða með kossi. Að kossunum loknum sneri hann á hæl og spurði mig: “Æjji... hvað heitirðu aftur?”. Ég svaraði því og segir þessi nýi leikmaður minn næst: “Heyrðu Krissi, ég ætla einhvern tíma að gista hjá þér. Ekki núna en einhvern tímann seinna”.
Af þessu öllu má draga þá lexíu að á margt reynir í starfi knattspyrnuþjálfarans. Starfið krefst þolinmæði, snöggra úrræða og ofar öllu samskiptahæfileika. Og þó svona aðstæður kunni að hljóma framandi fyrir þá sem ekki þekkja til er þetta daglegt amstur kollega minna í stéttinni. Manna eins og Mourinho, Wenger og Gauja Þórðar. Ég neita allavega að trúa því að mínir leikmenn séu eitthvað sérstaklega barnalegir...
<< Heim