þriðjudagur, nóvember 28, 2006

Jólasaga

Það var trúlega í nóvemberlok þegar fór fyrst að taka eftir undarlegri hegðun hjá stóra bróður. Ávallt er honum áskotnaðist fé, þó það væru bara örfáir tíkallar, skaust hann út í Hvammasjoppu eins og eldibrandur og hljóp svo beina leið heim, upp í herbergið sitt og læsti. Í fyrstu taldi ég að bölvaður froðuheilinn væri byrjaður að reykja og ákvað að veita honum eftirför. Ég vafði trefli um andlit mitt og dulbjóst sem njósnaninja. Greip hann glóðvolgan einn eftirmiðdag fyrir utan sjoppuna og sá greinilega að hann hafði fjárfest í þremur piparstöngum. Ég yfirheyrði hann á staðnum og upp úr krafsinu kom leynileg ráðagerð hans; að safna ógrynni piparstanga í gamla makkintossdollu og éta þegar barnaefnið byrjaði á aðfangadag jóla. Ég spurði hann nötrandi af forvitni:
-“Af hverju piparstangir?”
-“Af hverju piparstangir?”, spurði Svenni á móti, hló að mér fullur hneykslunar og leit á mig eins og frussandi horslumma læki úr nefi mínu. “Allir vita að piparstangir eru besta nammið í heiminum. Ímyndaðu þér að vakna upp á heilögum aðfangadegi með fullt box af slíku dýrindis gulli”, sagði hann og leit sem annars hugar og dreymandi í átt að Húbbahól.

Ég hreifst strax af þessum eldmóði Svenna og frá með þessari stundu helgaði ég mig þessu eina verkefni. Ekkert annað komst að. Ég leitaði að klinki heima hjá mér, á götum úti og sníkti villt og galið af ættingjum. Hver króna sem ég fékk milli handa fór í piparstangasjóðinn.

Áfram leið desember og senn voru makkintossdollurnar okkar Svenna orðnar þrjár talsins. Lífið snerist um piparstangir. Á Þorláksmessu töldum við saman stangirnar. Ég átti 97 stangir og Svenni 134. Við vorum stoltir af fengnum og gátum vart beðið eftir að vakna.

Barnaefnið á Stöð tvö hófst stundvíslega klukkan 8.00 þennan aðfangadagsmorgun. Við komum okkur fyrir undir sæng og afmeyjuðum fyrstu piparstangirnar. Sú fyrsta var góð. Önnur ekki eins góð. Ég var orðinn leiður á bragðinu þegar kom að þriðju. Fjórða og fimmta fóru í hausinn á Svenna og ég hljóp grátandi upp í herbergi, öskrandi að honum með ekkasogum: “Þú eyðilagðir jólin, apaheili!”. Ég skellti hurðinni þrisvar í röð þennan morgun.

...

Ég var sex. Gott ef þetta voru ekki sömu jólin og Þóra frænka át súkkulaðidagatalið mitt. Algjört helvítis annus horribilis.