fimmtudagur, nóvember 23, 2006

Old friends

Fór í gær út að éta í hádeginu og átti einar innihaldsríkustu samræður í langan tíma við kumpána minn. Út frá vangaveltum um gamla sovéska markmanninn Rinat Dassaej spunnust umræður um hollenska landsliðið 1988:

-Úff, spurning með Dassaej í markinu hjá Basten?
-Skallinn hjá Gullit var samt óverjandi.
-Já. Sjit, Hans van Breukulen?
-Heyrðu, Vanenburg!
Þögn.
-Van Tiggelen.
-Jan Wouters og Koeman.
-Erwin? Hrækard!
-1990? Buchwald, Brehme, Littbarski.
-Já. Pearce og Waddle. Neil Webb.
-Houghton. Preud’homme. Limpar.

Ég hefði allt eins getað verið að tala við malasískan knattspyrnuáhugamann. Boltalingóið er alþjóðlegra en esperanto. Tungumál án landamæra.

...

Á knattspyrnuvellinum er rúm fyrir alla. Nær stéttlaust samfélag. Fátækir stráklingar sem ólust upp við að sparka í tuskur geta leikið við hlið drengja með silfurskeiðar í tranti. Í fótboltaliði er pláss fyrir agalausa bjálfa sem eru slæmar fyrirmyndir en hálfguðir í krafti hæfileika sinna, en einnig fyrir skynsama og vel upp alda leikmenn sem ávallt eru til fyrirmyndar. Sumir koma heim úr atvinnumennsku með lögfræðigráður. Aðrir skalla andstæðinginn í bringuna í mikilvægasta leik lífs síns.

Og oftar en ekki eru það agalausu fíflin sem hafa hreðjarnar sem til þarf að vinna jafna leiki. Gaurarnir sem rífa kjaft. Sitja aftast í rútunni og heimsóttu iðulega skrifstofur skólastjóranna. Komast í slúðurblöðin fyrir slagsmál á pöbbnum. Þora að fórna sér inni á vellinum. Menn með hreðjar Rambós en vitsmuni mangós.

Og það besta er að þetta er fjölgyðistrú. Þú getur haldið með slatta af liðum í slatta af löndum. Getur lagt átrúnað á Rooney og Ronaldinho án þess að móðga neinn. Varnarguði og sóknarguði. Jafnvel apana í búrinu eins og Dassajev.