fimmtudagur, nóvember 09, 2006

Mannfíflið

Það er tími í háskólanum. Uppveðrað fólk diskúterar af miklum áhuga þær breytingar sem urðu á vísindalegri orðræðu á 18. og 19. öldinni. Maðurinn hafnaði bulli og bábiljum og fetaði veg framfara. Honum er víst enn ekkert ómögulegt og framundan eru fleiri ótrúleg tækifæri í endalaust spennandi vísindasamfélagi. “Samfélagsbreytingar á síðustu 150 árum eru ótrúlegar”, segir feitlagin kona á fremsta bekk og segir sögur af dauðum afa. Sjálfur skil ég lítið í tímanum og á erfitt með að tengja umræðuna við námsefnið en hrífst þó eilítið með þegar liðið byrjar að rausa um mikilfengleika manns og vísinda. Reyni að setja upp gáfulegan svip og kinka stundum kolli (en bíð í raun með óþreyju eftir frímínútum sem mér þykir ennþá það skemmtilegasta við skóla). Ég lít yfir hópinn. Svei mér þá, djöfull erum við öll öflug og flott svona nett háskólamenntuð og æðisleg. Það er eins og ekkert geti stoppað okkur í leit okkar að þekkingu og framförum. Ekki baun.

En eins og þruma úr heiðskíru lofti byrjar ein kellingin að öskra og hlaupa um stofuna og á sama tíma fara allir að hlæja. Svo virðist sem fluga hafi sloppið inn í tímann. “Þær stinga sko á haustin”, heyrist í einum gaurnum og nokkrir hlaupa strax út úr stofunni. Flugan fer hratt á milli borða og tvær stelpur taka upp á því að fela sig undir borðunum sínum. Þrír hraustir piltar reyna hvað þeir geta að ná flugunni vopnaðir kaffibolla og servíettu.

Tíminn er ónýtur. Einbeiting allra er helguð flugu. Enginn er meðvitaður um að í pontu masar enn sérvitur prófessor um kenningar bókmenntafræðinga og hvernig áherslur í fræðum breyttust er fram liðu stundir.

...

Djöfull erum við heimsk öll.