Sambýli
Ef sambúð fólks á að ganga er mikilvægt að hafa heimilisreglur og ákveðnar, fastmótaðar skyldur gagnvart heimilishaldi. Ein helsta reglan hjá mér og sambýlismanni mínum, Jóa, (og nú nýjustu viðbót sambýlisins, Kidda) er í þá veru að þegar eitthvað þarf að gera skal fara fram einhvers konar keppni sem skilur á milli sigurvegara og lúsers. Lúserinn þarf svo að vinna verkið; vaska upp, ryksuga eða þrífa klósett. Á tímabili í sumar var kærasta Jóa afar grátt leikinn af þessari reglugerð og vann flest heimilisverkin þrátt fyrir að vera búsett í Reykjavík.
Oftast hefur lúserinn verið fundinn með íbúðarhandboltaleik, skrabbli eða teningakasti en einnig og ekki síst með smá pílukasti. Sú var raunin um daginn þegar við Kiddi og Jói reyndum að útkljá hver okkar færi út í sjoppu að kaupa nammi. Þegar ljóst var að Kiddi hafði tapað fylltist Jói allt í einu gremju vegna þeirrar staðreyndar að ég hef aldrei tapað í baráttunni um heimilisverkin. Lét hann ýmis orð falla, m.a. baulaði hann svo: “Mér er skapi næst að grýta pílunum í þig, helvítis grísarinn þinn!”. “Það væri reyndar mjög fyndið”, sagði Kiddi og hló aulalega. “Það væri svo fyndið að ég gæti tæpast orðið reiður, húmorinn væri svo framúrskarandi”, svaraði ég kaldhæðnislega um leið og ég sneri mér við og labbaði inn í stofu vitandi að ég þyrfti ekki að fara út í sjoppu. En á sama augabragði fann ég fyrir öskrandi sting í bakinu, rétt eins og atgeir hefði verið rekinn í mig. Ég æpti eins og særður göltur, velti mér um á gólfinu og uppgötvaði senn að Jói hafði hent pílu í mig af öllu afli. Á meðan ég var að jafna mig stumraði Jói skömmustulegur yfir mér og baðst fyrirgefningar í sífellu á móðursjúkan máta.
Í dag er ég með agnarlítið sár á bakinu og finn til þegar potað er í það. Þegar ég sef læsi ég herberginu mínu. Þannig getur enginn gert mér neitt eftir að ég hef grátið mig í svefn.
<< Heim