Syndir
“Saturday night, dance, I like
The way you move
Pretty baby
It's party time and not one
Minute we can lose
Be my baby”
Vefútgáfan af Jóa félaga er sennilega ein heitasta síða alnetsins um þessar mundir. Hann lendir í mýmörgum ævintýrum í skóla og vinnu og skafar ekki utan af meiningum sínum. Stundum er jafnvel söguþráður og fléttur í gangi frá einni færslu til annarrar. Nú nýlega birti þessi grallaraspói erfðaskrá sína. Þar segir m.a.:
“Sérstaklega vil ég taka fram að Krissi á að fá Whigfield diskinn minn. Það kann að hljóma ótrúlega en Krissi er mikill aðdáandi hennar og gaf mér diskinn í 14 ára afmælisgjöf.”
Ég man reyndar ekki hvað ég gaf Jóa í 14 ára afmælisgjöf en veit að það var ekki Whigfielddiskurinn. Þessi ummæli kalla þó á að sagan verði sögð, ekki endilega til að svara fyrir mig heldur einfaldlega vegna þess að hún er skemmtileg minning.
Allt saman átti sér stað í Kringlunni fyrir ellefu árum. Voru þar á vappi unglingspiltar tveir er báru nöfnin Krissi og Jói. Við sprönguðum kampakátir um rúllustigana þennan dag enda átti Jói afmæli (varð 13 ára þennan dag). Bróðir hans hafði ákveðið að gefa honum gjöf tónlistar í afmælisgjöf en vildi leyfa Jóa sjálfum að velja diskinn. Við trítluðum því í Skífuna. Ég vildi eindregið aðstoða við leitina og sýndi honum nokkrar plötur sem ég hélt að höfðuðu til hans. Rak fyrst augun í ‘I should coco’ með Supergrass og sýndi afmælisbarninu. “Supergrass? Hvaða grasafræðingar eru það? Ég hef aldrei heyrt um þessa nóboddía áður”, sagði Jói og kvað mig þannig í kútinn. Næst fann ég plötu með Pulp er hét ‘Different class’ og veifaði henni. Jói gretti sig eins og hann hefði bragðað á sápu: “Oj! Ekki ætla ég að dilla mér við svona dópistamúsík”. Ég gafst ekki upp enda nóg af hljómsveitum í diskaflóðinu í Skífunni. Það hlaut að vera eitthvað fyrir Jóa þarna. Ég reyndi einu sinni enn, hóf á loft ‘Parklife’ með hljómsveitinni Blur. Loksins náði ég til Jóa. Hann kinkaði samþykkjandi kolli og sagði svo: “Já. Hef heyrt að þessi sé góð. En ég er búinn að velja mér disk”. Ég spurði yfirspenntur út í valið. “Ætla að taka þennan bara”, sagði Jói og sýndi mér samnefndan disk með síðdiskódrottningunni Whigfield. Mér féllust hendur. Hann hélt áfram: “Þú veist, Whigfield!”. Fólk var farið að stara á okkur. Ég var nær lamaður af skömm og reyndi að þagga niður í honum með augnaráðinu. Það gekk ekkert enda var hann í miðri frásögn: “Þú veist alveg hver hún er, var með lagið, þarna… When I think of you… I feel like flying, like a dream come true”. Á meðan hann stóð í miðri búð og söng hástöfum roðnaði ég allur og svitnaði í lófunum. Ég gekk til hans, klappaði honum fast á öxl og sagðist ætla að bíða fyrir utan. Skömmu seinna gekk alsæll Jói út með nýja diskinn sinn í bláum Skífupoka.
Þennan dag var Whigfield ekki rædd frekar. Enda má ekki stríða þeim sem eiga afmæli. Þeir eru friðhelgir og geta gert það sem þeir vilja. Ég þurfti því að harka af mér og hugsa til hinna 364 daganna sem eru í árinu.
Þess ber að geta, Jóa til málsbóta, að hann er með mjög góðan tónlistarsmekk í dag. Sannast því hið fornkveðna: Það þarf að þekkja vítin til að varast þau.
<< Heim