miðvikudagur, mars 22, 2006

I read the news today oh boy...

Gluggaði lítið eitt í DV á bókasafninu í dag. Á forsíðu þar var greint frá árshátíð landlæknisembættis og að þar hafi verið stigin fugladans. Á forsíðunni var einnig frétt þess efnis að fermingardrengur hafi ælt í kirkju og á prest. Drengræfillinn var víst veikur. Þegar ég sá þetta var mér hugsað til hvað væri eiginlega á forsíðu Moggans þennan sama dag. Þar var fín frétt af brotthvarfi varnarliðsins. Einnig átti Bush í hótunum við forseta Hvíta-Rússlands og krafðist þess að sá léti endurtaka kosningar þar í landi. Þá var frétt um einræðisherra Túrkmenistan sem heldur því fram að ef þegnar landsins lesi nýútkomna bók hans þrisvar sinnum komist þeir pottþétt til himna.

Þegar ég bar forsíður blaðanna saman sást að ólíkur bragur er á vinnubrögðum. Ég velti þessu töluvert fyrir mér og með hverri sekúndu stigmagnaðist reiði mín í garð DV. Hvað voru þessar fréttir að gera á forsíðu? Hvað varða þær mig? Hvers konar fréttamennska er þetta? Og síðast en ekki síst: Hvernig á ég að vita hvað Gilzenegger og Fazmoklíkan og Silvía Nótt voru að gera um helgina ef blaðið eyðir öllu plássi í frásagnir af ælandi fermingardrengjum?