fimmtudagur, mars 09, 2006

Hvammarnir

“Hvammahverfið, hér er ég!
Hér er gleði, hér er spé!
Hvammahverfið! Hér er ég!
Vó-ó-ó-ó.“
(Sungið við Ósílagið)

Suðurbæjarlaugin var ein helsta bækistöð krakkanna í Hvömmunum og hjarta hennar vitaskuld rauða rennibrautin. Oft beið ég ískaldur í langri röð eftir tækifæri til að troða sundskýlunni sem ákafast upp í afturendann á mér og brunaði svo niður gólandi eins og Móglí í skóginum (eða hét hann Múslí? Hver var Múslí?). Einn vinur hans Svenna var snillingur í þessu. Átti öll hraðamet í brautinni. Hann var svo hæfileikaríkur að þegar hann var sérstaklega góður með sig fór hann úr sundskýlunni á leiðinni niður, sveiflaði henni yfir höfði sér og rak á sama augnabliki upp hressilegt skaðræðisöskur sem var eiginlega hans vörumerki. Þegar hann lenti svo ofan í sjálfri lauginni var hann búinn að klæða sig aftur í skýluna. Það var ekki laust við að hinir krakkarnir í lauginni bæru óttablandna virðingu fyrir þessu atriði. Og gaurinn var sem guð. Kannski ekki beint leiðtoginn þegar vinirnir voru í fótbolta eða úti að leika sér en eftir að hann steig fæti úr strákaklefanum og í lögsögu laugarinnar átti hann pleisið. Hann var syndur sem silungur, undi sér í kafi eins og brúnþörungur og þegar hann stakk sér til sunds var hann eins og af höfrungakyni.

Þegar Stjáni Páls, bekkjarbróðir Svenna bróður og nágranni, bauð mér óvænt með öllum eldri strákunum í sund einn daginn vissi ég að eitthvað byggi undir. Annaðhvort ætlaði hann að gera mig að athlægi eða nota mig í bíræfnum tilgangi. Ég skellti mér samt með þeim með bros á vör. Var líka pínu að vonast til þess að fá loksins að sjá hið margfræga rennibrautarbragð vinar þeirra, hafmannsins mikla.

Krökkt var af krökkum þennan dag í lauginni enda glotti sólin stríðnislega framan í okkur. Þegar í Sveppinn var komið fór Stjáni Páls, nágranni minn að segja mér frá öllum brellum gullna sundfélaga þeirra og manaði mig til að biðja hann um sýnishorn. Ég safnaði kjarki og bað svo sjálfan garpinn um að sýna mér sundskýlubragðið. Hann var efins. Svenni bróðir pressaði þó á hann, sagði að ég hefði aldrei séð þetta og yrði að fá sönnun. Þá fyrst hugsaði sundguðinn málið. Hló svo á yfirlætisfullan hátt að mér, skvetti vatni framan í mig og sagði: “Viltu sönnun? Ég skal gefa þér sönnun!”. Svo skokkaði hann að rennibrautinni, ruddist framfyrir nokkra smástráka og setti sig í stellingar. Fyrst tróð hann skýlunni vel upp í ristil, framkvæmdi mikilfenglega mjaðmahnykki og fór síðan sem eldibrandur niður rennibrautina. Hann var skotfljótur úr skýlunni og byrjaði að sveifla henni yfir höfði sér hlæjandi. Við strákarnir horfðum agndofa á. Og formálalaust sást Kristján Páls dúkka upp við hlið rennibrautarinnar, klifra lipurlega upp hana og í einni svipan hrifsa skýluna af sýningarstjörnunni sem óðum nálgaðist neðsta hjall rennibrautarinnar. Sigurbros sundgarpsins breyttist í hræðslusvip og örvæntingarfullir píkuskrækir keyrðu upp úr honum er hann lenti skýlulaus í miðri laug með hendur fyrir leyndarlimum sínum. Stjáni Páls hljóp alla leið út á mínígolfvöll með skýluna og sundgarpurinn eigraði í gegnum krakkaskarann sem hló og benti svo hávaðinn var eins og í fuglabjargi. Alstrípaður og skömmustulegur þrammaði hann framhjá okkur í Sveppnum og inn í strákaklefa.

Hann var aðhlátursefni á eigin heimavelli þennan dag. Sumir vildu meina að hrokinn hefði orðið honum að falli. Hvað sem því líður er ljóst að frá þessari stundu var alltaf frekar stirt milli sundkappans og Kristjáns Pálssonar.