föstudagur, janúar 27, 2006

People take pictures of each other

‘Pictures of Lily made my life so wonderful
Pictures of Lily helped me sleep at night
Pictures of Lily solved my childhood problem
Pictures of Lily helped me feel alright’

Fyrir rúmri viku tók ég upp á því að hanga svolítið í gamla menntaskólanum mínum (var að aðstoða ræðumenn skólans). Lærði að það þykir kúl nú til dags að vera ‘víraður’ og miður kúl að vera ‘algjör safi’. Er annars bara eins og ég var. En við þessa dvöl í gráa kastalanum varð mér litið til baka á þá daga er ég var í Flensborg. Fyrir vikið sagði ég sögu af Skrymbli einum. Bið ykkur nú að tjekka á þessu...

Við vorum heima hjá Danna. Fréttabréfið eins og það lagði sig; ég, Eyvi, Danni og Jói. Eyvi hafði skömmu áður tapað í veðmáli og þurft að hringja í dömu eina sem sat stundum fyrir í blöðum eins og Hustler og Bleiku og bláu. Sú hafði einu sinni verið í Flensborg líka. Við vildum að hún yrði ungfrú desember í jólablaði Fréttabréfs NFF. Hún sló til. "Okkur datt í hug að þú gætir verið í bikiníi... samt allt í lagi ef þú vilt það ekki..." hafði Eyvi sagt við hana. Þegar drottningin mætti heim til Danna fór hún hins vegar rakleitt inn á salerni, fór úr að ofan, klæddi sig í bláa silkihanska og kaus að halda fyrir brjóst sín á myndunum. Setti einnig á sig jólasveinahúfu og var til skiptis með handjárn og vindil í kjaftinum.

Á sama tíma og hún gerði sig klára á salerninu veltum við fyrir okkur hver ætti að taka myndirnar. Völdum fljótt Jóa. Við hinir vorum eiginlega bara eins og kjánar á meðan allt fór fram. Jói hins vegar blómstraði. Stjórnaði myndatökunni eins og herforingi og var sítalandi við fyrirsætuna: ‘Flott! Og brosa! Og vera reið! Glæsilegt! Vinndu aðeins með mér! Glæsilegt!’. Eftir að ljósmyndarinn hafði tekið fullt af myndum af henni liggjandi í sófanum heima hjá Danna ýmist með vindil eða handjárn í munnrifunni færði hann sig upp á skaftið. Lét henni í té jólakrans sem hún reyndi vandræðaleg að flétta inn í myndaseríuna. Jóa var svo skyndilega litið á styttu af gömlum manni í stofunni og heimtaði að hún smellti styttunni fyrir brjóst sín og setti upp getnaðarlegan svip. Fáránlegt útspil en daman leysti það eins og pró. Á meðan á þessum skrípaleik stóð var fjölskylda Danna á neðri hæðinni að horfa á sjómbann. Bara venjulegt þriðjudagskvöld hjá þeim.

Daman fór á salernið að myndatöku lokinni og við tókum viðtal við hana er hún hafði klætt sig í aftur. Birtum allt saman í Fréttabréfinu. Jólablaðið var í lit þetta árið. Sjálfir prýddum við reyndar forsíðuna, uppáklæddir með jólapakka uppi á Hamri. Jói var vafinn í plastfilmu og nakinn undir. Heimskulegir tímar.

Þetta ruglingslega kvöld heima hjá Danna var lengi rætt síðar meir. Við bara gláptum á þessu léttlyndu stelpu sem flétti sig klæðum eins og ekkert væri eðlilegra. Vitandi að á hæðinni fyrir neðan voru Halli Skef, Elísa og Hrönnsa litla í gúddí gír að glápa líka en sennilega bara á eitthvað gott fjölskyldudrama. Þau komust aldrei að því hvað fór fram í stofunni þetta kvöld.

Þegar ég kem í heimsókn í Lækjarhvamminn enn þann dag í dag er ekki laust við að ég brosi algjörlega ósjálfrátt þegar mér verður litið á styttuna af gamla kallinum í stofunni. Og það sem meira er, þá er ég alls ekki frá því að gamli kallinn brosi alsæll á móti.