miðvikudagur, desember 28, 2005

Löggu- og áramótasúpa

“Every year is the same and I feel it again
I’m a loser, no chance to win”


Jólaboð eru súr. Ég var enn með harðsperrur í hausnum eftir jólaprófin þegar ég þurfti að leggja á mig að læra nöfn allra spánýju krakkanna sem ættingjar mínir hafa ungað út undanfarin ár af svipaðri taktfestu og áfergju og tennisboltavélar. Ákvað að mæta með svindlmiða til öryggis en þegar frænka mín sá hann var mér næstum hent út úr boðinu.

Er held ég enginn sökker fyrir jólunum. Fróðir menn segja mér líka að Jesú kallinn hafi í raun fæðst um vor. Og fjögur ár fyrir “Krist” í þokkabót.

Þegar ég hugsa um jólin hugsa ég um svífandi snjókorn er falla og gömlu jólaböllin í Öldutúnsskóla þar sem eldri kórstelpurnar í bláu kjólunum sungu alltaf ‘ba-ba-ba’ á torkennilegum stöðum í laginu ‘Svona gerum við’. En mér er stundum líka hugsað til lögreglumanna. Sennilega vegna þess að ég hef átt eftirminnileg samskipti við slíka menn í kringum jól og áramót. Þær frásagnir hafa áður verið færðar til bókar en örfáar löggusögur kann ég í viðbót.

Á gamlárskvöldum í denn var hópur ungra og spilltra Hafnfirðinga gjarnan samankominn niðri í bæ. Þar voru læti. Þar var drykkja. Þar var ég stundum líka. Oft urðu slagsmál á þessum samkomum. Einu sinni fékk félagi minn glerflösku í hausinn og þurfti að láta sauma nokkur spor í toppstykkið. Öðru sinni komst einn félagi Svínka bróður, sem var þekktur fyrir að vera friðsæll og ljúfur, í hann krappan. Honum var suddalega kalt eftir langt gamlársdund niðri í bæ og vildi heim, kvaddi vini sína og brá á það ráð að hlaupa eins og fætur toguðu heim á leið svo kuldinn næði ekki að herja á hann. Hann hljóp eins og mesti skeiðhestur en vissi ekki að skömmu áður en hann lagði af stað hafði rúða brotnað í miðbænum og löggan mætt til leiks í leit að sökudólgi. Senn fóru einkennisklæddir menn að elta þennan blásaklausa mannvin sem leist ekkert á blikuna, skrækti og hljóp enn hraðar. Að lokum sneru löggurnar hann niður, ríghéldu greyinu og negldu við grjótharða gangstéttina um leið og þeir þrumuðu ljótum orðum yfir honum. Félagar hans þurfti að hafa sig alla við til að útskýra allt saman fyrir löggunum. Manngreyið var bara rangur maður að hlaupa á röngum tíma.

Önnur hafnfirsk lögga var fræg fyrir að mökkast upp við störf sín, m.a. er hún færði mig í handjárn eftir snjókarlsatvikið fræga. Sá löggi átti einhverju sinni gott móment er hann stoppaði móður eina um jólaleytið og lét blása í áfengismæli. Sú var aldeilis edrú og fín en vel pirruð yfir einfeldni lögga. Löggi vildi þó mikið klína einhverju á kvendið, varð litið til barnsins í aftursætinu og sagði: “Gerirðu þér grein fyrir að komið er fram yfir leyfðan útivistartíma barna?”.

Bæjarfíflið á Selfossi gekk víst líka einu sinni í sveit lögvarða þar í bæ og mökkaðist allverulega upp þegar það klæddist búningnum. Var sem hafinn yfir allt jarðneskt. Frægt var þegar hann stoppaði og sektaði bróður sinn fyrir að aka um ljóslaus. Ljóslausi bíllinn var í eigu sjálfrar löggunnar.

Það verður þó ekki tekið af laganna vörðum að þeir vinna mikið og gott starf og kann ég vel að meta það þrátt fyrir glens og skens í þeirra garð. Enn þann dag í dag veifa ég þeim þegar ég sé þá, þó þeir séu löngu hættir að veifa mér til baka.

Breytir því þó eigi að framundan eru áramót. Síðasta áramótaheitið mitt var að læra “Nú árið er liðið”-lagið svo ég geti sungið það í ár. Stefnir allt í að það verði líka næsta áramótaheit.