mánudagur, nóvember 21, 2005

Kórpartí

Kórpartí eru rugl. Því fékk ég að kynnast í eina skiptið sem mér hefur verið boðið í kórpartí. Heima hjá Jóa á Álfaskeiðinu fyrir mörgum, mörgum árum. Ekki það að ég hafi verið í kór samt. Jói sá um það. Ruglpartí alveg. Við Danni vorum reyndar svolítið utanveltu, húktum í eldhúsinu og blönduðum snilldardykki í einhverjum blandara. Á meðal hráefna var heill banani, vanilluís og gomma af áfengi. Reyndum þetta oft seinna en klúðruðum alltaf uppskriftinni.

En kórpartí taka ávallt enda. Það var býsn áliðið þegar við sátum fjögur eftir á Álfaskeiðinu í rólegheitunum. Ég, Jói, Danni og stór og áfengisdauð, belglaga stelpa í sófa í stofunni hjá Jósa. Ég þekkti þessa stelpu ekki neitt, var ekki einu sinni viss um að hún væri í helvítis kórnum. Allt í einu ljómaði Jói upp og sagði: “Vitið þið hvað væri algjör snilld?”. Það vissum við ekki svo hann bar undir okkur þá hugmynd að troða eyrnapinnum í eyru og nef dauðrar stelpunnar. Danni var geim og þeir hófust handa. Hlógu og skríktu. Ég horfði á og hló smá líka.

Allt í einu tók belgurinn að ókyrrast í sófanum og okkur dauðbrá. Jói náði að hlaupa fram í eldhús en við Danni grúfðum í sófann og þóttumst sofandi. Bjórbelgurinn reif eyrnapinnana framan úr sér og stóð upp. Kvendið hóf að erfiða við að girða niður um sig brækur. Ég pírði augun og reyndi að fylgjast með. Svo reyndi kella að labba áfram með brækur á hælum og gekk það seinlega. Hún fékk sér loks sæti í borðstofunni og athafnaði sig þar. Eins og í að míga. Á stólinn. Í teppið. Út um allt. Hysjaði upp brækur, tölti aftur í sófann og sofnaði á ný. Við Dannsi trítluðum fram í eldhús til Jóa og felldum þar tár af hláturs sökum. Jóa fannst þetta ekkert tilefni fyrir spé og var fúll í bragði. Hann gekk rösklega fram úr eldhúsi, til telpu og spurði hana út í verknaðinn. Hún sór allt af sér og neitaði að þrífa. Jói sneri aftur til okkar með skottið milli lappa, algjörlega úrræðalaus. Ég hló. Skellihló eins og kelling sem er uppalin á Akranesi. Danni varð hins vegar reiður og vildi toga sannleikann upp úr kellu. Hann gekk að sófanum og skipaði henni að byrja að þrífa. Ég hló. Hún játaði loks sakir og stóð upp. Gaufaði í kringum vettvang glæpsins en þreif lítið. Sagðist svo þurfa að fara. Jói þreif rest. Ég hló.

Eftir atburðinn hef ég oft farið í matarboð á heimili Jóa, ekki síst af þeim sökum að við erum helvítis frændur. Mér stendur stuggur af þessum boðum þar sem algjör óvissa hefur verið um hver stólanna við borðið er hlandstóllinn frægi. Það er við aðstæður sem þessar að hlátrinum loksins linnir.