mánudagur, nóvember 21, 2005

Við og þeir

"Us and Them
And after all we're only ordinary men"

Ég hef aldrei verið haldinn hatri í garð gyðinga, samkynhneigðra, litaðra, araba eða Haukara. Hef í raun lagt mig í líma við að vera ekki fordómafullur. Eitt er það þó sem ég þoli verr en fordóma. Það eru helvítis Ólafsvíkingar. Ef það er eitt sem knattspyrnan hefur kennt mér þá er það að Ólsarar eru aum mannkerti og svikulir gígalóar upp til hópa.

Ég hef bara einu sinni komið á Ólafsvík. Ekki langað aftur eftir það. Þetta var fótboltaferð. Var í 3. flokki. Það sumarið vorum við með b-lið sem lék í 7-manna bolta. Gekk frekar illa. Liðin út á landi unnu yfirleitt alltaf þar sem þau tefldu fram a-liði. Ekki með 11-manna lið vegna manneklu. Einu sinni vantaði Garðar Smára þjálfara, leikmenn til að fara vestur á Ólafsvík og bauð öllum hópnum að spila. Þeir sem vildu máttu koma. Við með öðrum orðum að svindla smá. Ég ákvað að skella mér. Eins komu Davíð, Palli og Bjössi man ég. Við vorum svindlmenn.

Við fórum í langferðarbíl. Bílstjórinn var sköllóttur, feitur og opnaði ekki munninn nema til þess að láta lélegan fimmaurabrandara flakka. Varð brátt þreytandi. Garðar Smári tjáði okkur að Ólsarar væru víst með hörkulið, þyrftu nauðsynlega að vinna þennan leik til að komast í einhvern úrslitaleik. Við hlógum að þessu, vorum sannfærðir um að við myndum leika okkur að þeim enda með óhreint og kolólöglegt mjöl í pokahorninu.

Það var frábært veður þennan dag og aðstæður til fyrirmyndar. Fjölmargir bæjarbúar voru mættir á leikinn, greinilegt að hann skipti miklu máli fyrir Víking Ólafsvík. Andstæðingar okkar voru tröll að burðum. Mikla eftirtekt vakti risavaxinn lurkur sem slagaði í tvo metra og var pottþétt 150 kíló. Gat ekki verið að hann væri jafngamall okkur. Hinir voru töluvert léttari en ekki mikið lægri í loftinu. Þegar leikurinn hófst kom líka á daginn að þeir voru ágætir í fótbolta, komust strax í 3-0. Þeir voru jafnframt fastir fyrir, enda líkamlega sterkari en við. Við brugðumst illa við þessu og brutum oft klaufalega af okkur. Þá urðu þeir grófir á móti og spörkuðu okkur annað slagið niður. Strax í byrjun fóru menn að hnýta hverjir í aðra, rífast og skammast. Hatrið stigmagnaðist. Við jöfnuðum í lok fyrri hálfleiks, staðan var orðin 3-3. Í þeim síðari var ljóst að þeir ætluðu að gera allt sem í þeirra valdi stóð til að vinna leikinn. Við vorum trekk í trekk bombaðir niður. Palli svaraði einu sinni helvíti vel fyrir sig en var kýldur í smettið. Sá sem kýldi var sendur í bað. Dómarinn réði ekki neitt við neitt en reyndi að róa heimamenn enda greinilegt að hann þekkti þá ágætlega. Kallaði einu sinni: "Dúddi minn, slakaðu aðeins á og farðu að hugsa um að spila fótbolta!" en fékk svarið: "Þegiðu, pabbi og reyndu að dæma eins og maður!".

Þegar búið var að kýla Palla var eins og við ákváðum að fara að spila fótbolta, fyrst við vorum komnir gætum við alveg eins unnið helvítis leikinn. Og fljótlega komumst við yfir. Þá varð allt brjálað. Fengum fleiri spörk, svöruðum æ oftar fyrir okkur og tvívegis þurfti dómarinn að stöðva leikinn og láta þjálfarana róa liðin niður. Hatrið var nær áþreifanlegt milli liðanna. Gaurinn sem dekkaði mig var farinn að hrækja á mig og braut nánast alltaf á mér þegar ég fékk boltann. Þeir jöfnuðu í 5-5 þegar lítið var eftir. Skömmu seinna náði ég að koma okkur yfir. Ég fagnaði ekkert með liðsfélögunum heldur hljóp gaurinn sem dekkaði mig uppi, horfði í augun á honum, öskraði: 'jeeeeessssss' og fagnaði eins og óður maður. Settum svo sjöunda markið og ég gerði nákvæmlega það sama. Kannski ekki mín stoltasta stund en sagði pínulítið um andrúmsloftið. Unnum 7-5 og fögnuðum í leikslok, einkum til að pirra Ólafsvíkinga enn frekar. Heimamenn fóru að rífast í okkur og Palli lenti aftur í slagsmálum. Stóri, feiti lurkurinn í liði Ólsara hafði ekkert komið inn á leiknum en var að springa úr gremju. Hann öskraði út í víkina og gekk berkserksgang, fór að angra Davíð sem svaraði fyrir sig með vel völdum orðum. Lurkurinn ætlaði þá að berja Davíð, vaggaði þunglamalega að honum og ég var sannfærður um að við yrðum allir lamdir í stöppu. Ólsararnir munduðu hnefana og voru greinilega til í að láta vindlana að sunnan finna til tevatnsins. Morgunljóst að þeir hefðu lamið okkur alla í klessu. En á ögurstundu kom hjálp úr óvæntri átt. Þegar lurkur var að nálgast Davíð stökk sköllótti, feiti bílstjórinn upp, hljóp á ógnarhraða á vettvang og sneri lurk þeirra Ólsara niður med det samme. Bílstjórinn var miklu minni en sveitadurgurinn en hélt honum í heljargreipum og kallaði um leið til okkar: "Náið í töskurnar út í búningsklefa og hlaupið út í bíl!". Við gerðum sem okkar var sagt og vorum á skotstundu komnir út í bíl með allt okkar hafurtask. Bílstjórinn hljóp til okkar, startaði bílnum og brunaði af stað en Ólsararnir hlupu á eftir og köstuðu grjóti í bílinn.

Það var mikil svitalykt í langferðabílnum á leiðinni heim en aulabrandarar bílstjórans urðu einhverra hluta vegna fyndnari og fyndnari. Hann hafði í einni svipan orðið að hetju. Án hans hefðum við allir verið lamdir. Það hefði þó vart breytt því að við sviptum Ólsaragreyin einhverjum úrslitaleik. Og við með kolólöglega leikmenn innanborðs.

Ég hef alltaf staðið í þeirri trú að einhvern veginn svona hefjist styrjaldir. Með ranghugmyndum okkar um þá og þeirra um okkur.