Keep on running to the hills like hell*
Það var frí í skólanum og ein stelpan í bekknum nýbúin að halda upp á afmæli sitt. Við vorum í 9. bekk. Ég, Kiddi klútur og Danni vorum ekki á því að fara heim alveg strax eftir afmælið svo við klifruðum upp á þak leikskóla og spjölluðum þar. Fórum að raula sönglög út í nóttina. Klukkan var margt og líklegt er að íbúar í kring hafi látið lögguna vita af kvaki okkar ærslabelgja. Við vorum komnir niður af þakinu og alveg að fara heim þegar löggan mætti á svæðið og beindi vasaljósi að okkur. Okkur krossbrá og fyrr en varði heyrðist í Kidda klút: “Hlaupum!”. Hann og Danni tóku til fótanna en ég stóð sauðalegur eftir og skildi lítið í hvert þeir væru að fara svona skyndilega. Upphófst æsilegur eltingaleikur. Kiddi klútur stökk yfir grindverk eins og fimasti fákur og Danni hélt í humátt á eftir. Danni rak sig þó kauðalega í grindverkið, fór úr axlarlið en hélt áfram að hlaupa fyrir lífi sínu með aðra hendi hangandi með síðu. Spretthörð lögga elti þá en ég horfði á þennan einkennilega sjónleik í forundrun og spurði lágt út í myrkrið: “Hvert eruð þið að fara, strákar?”. Brátt kom önnur lögga að mér og bað mig að koma í bílinn til sín sem ég gerði umsvifalaust. Í glæpamyndum gengur oft bagalega að fá skúrka til að skvíla þegar lögginn heimtar upplýsingar en þegar hann spurði mig um nöfn flóttamannanna tveggja stóð ekki á svörum: “Þeir heita Kristinn Bergmann og Daníel Scheving. Eiga heima á Ölduslóð 20 og Lækjarhvammi 23. Kennitölur eru ...”. Hjartsláttur minn var sem samrunninn trommuheila í lagi með 2 Unlimited og skjálftinn í röddinni var upp á níu á Richter. Samt vissi ég vel að við höfðum ekkert gert af okkur.
Sá löggi er elti strokumennina tvo sneri fljótt aftur með Kidda klút. Reif í peysuna hans og dró hann svo harkalega að klúturinn var allur skakkur á höfði hans. Kiddi settist hjá mér í aftursæti löggubílsins. Löggurnar tjáðu okkar að annar löggubíll hefði gómað Danna fyrir utan heimili hans. Einhver var búinn að segja þeim allt um hvar Danni ætti heima. Búið var að kippa öxl Danna í lið aftur. Við héldum upp á stöð. Danni var bara einn í hinum bílnum og lenti í harðvítugri löggu með attitjúd sem m.a. spurði Danna hvað hann hygðist gera eftir grunnskóla. Danni sagðist vera að spá í að fara í MR en þá hló löggi hrossahlátri og sagði: “Þú meinar Iðnskólann, ræfillinn þinn!”.
Á stöðinni hófst yfirheyrslan. Yfir hausamótum okkar flögruðu spurningar: ‘Hvar er fjórði pilturinn? Af hverju voru þið að brjótast inn í skólann ykkar? Hvar fenguð þið flugeldana?’ Við svöruðum skipulega og fljótt varð ljóst að við vorum bara blásaklausir götustrákar sem urðu hræddir þegar löggi fór að beina vasaljósi að okkur. Þegar löggurnar föttuðu þetta var allur vindur úr þeim. Ein þeirra mökkaðist reyndar öll upp og sagði okkur að fara úr fötunum, þeir ætluðu að henda okkur í lækinn. Okkur var ekki skemmt. Hann ítrekaði skipunina: “Setjiði fötin í skápinn hérna, við tökum lækinn á þetta fyrst þið viðurkennið ekkert!”. Eftir langa þögn sagði Kiddi klútur með titrandi rödd: “Hei, nenniði ekki bara að skutla okkur heim?”. Súrir í bragði umluðu þeir ‘jú’ og skutluðu okkur heim.
Danni jafnaði sig aldrei í öxlinni eftir þetta allt saman, fór upp frá þessu oft úr lið þegar hann spilaði handbolta og var settur í nokkrar aðgerðir. Handboltaferillinn stóð á brauðfótum eftir þetta. Hann fór svo oft úr lið að hann komst varla í lið. Kiddi klútur bar sig hins vegar vel, var bara yfirleitt nokkuð brattur og bar höfuðið hátt en jafnframt vel skreytt með rauða tóbaksklútnum. Sjálfur var ég bara heima að horfa á sjónvarpið næstu kvöld á eftir. Hrökk stundum kófsveittur upp um miðjar nætur eftir að hafa dreymt um að busla berstrípaður í ísköldum læk með glampa vasaljóss hlæjandi lögreglumanna í augunum.
Viðbætur:
Sumir vilja meina að sannleiksgildi frásagna minna rýrni mikið vegna þess að ég eigi til að mála frekar sakleysislega mynd af mér sjálfum en láti aðra líta illa út. Þessu er ég sammála. Sama fólk er á því að ég eigi að láta af slíkum stílbrögðum og segja fullkomlega satt og rétt frá. Þessu er ég ósammála.
*Þar sem ég gat ekki ákveðið hvaða lagaheiti væri best til brúks í fyrirsögn varð fyrirsögnin að lagasúpu. Spurningin er því; hvað þrjár söngsveitir eiga flóttalögin sem fram koma í fyrirsögninni? Þar sem ég er eigi með kómentukerfi bið ég fólk um að skrifa svörin á blaðsnifsi og stinga því inn í floppídrif tölvunnar.
<< Heim