föstudagur, nóvember 11, 2005

Blessuð sértu sveitin mín

Bölv þeim óskunda!

Ég held ég sé að taka beilið á endurfundi gamla grunnskólahyskisins vegna fjárhagsvandræða. Það fer bara ekki saman að vera aumingi og námsmaður og ætla um leið að fara á fín hlaðborð í Grindavík. Horfði á eftir aurnum mínum í bílamix í dag mér til nokkurs ama.

Gaman að svona ríjónjónum alltaf samt. Kyndugt að sjá hvað liðið er að gera í dag. Sumir með krakka, aðrir á krakki og allt þar á milli. Ein skólasystir er bóndi, á hesta og kindur og hrossabrest og sveitakrakka. Er örugglega með niðursetninga á sveitabænum líka. Tvo til þrjá ómaga frá hreppnum. Étur sennilega súrbít í öll mál og þegar hún er búin að éta og mjólka tekur hún svona svarta hestasvipu og ber niðursetningana til óbóta. Lætur vinnumanninn svo lesa rímurnar um Hænsna-Þóri í baðstofunni á kvöldvökum. Konurnar vefa á meðan en smaladrengurinn sleikir askinn sinn eins og óður maður. Eitt kvöldið hefur sonur hennar líklega séð mann nálgast bæinn og stokkið spenntur upp og æpt: “Mamma, mamma. Komumaður nálgast bæinn!”. Svo hefur dularfullur maður riðið að bænum og afhent henni bréf með upplýsingum um ríjónjón ’81 árgangsins sem haldið verður í Bláa lóninu. Þá hefur skólasystir mín hugsanlega sagt: “Bestu þakkir, eðalgöfugi förumaður.”

Ekki það að það sé neitt sveitó að búa í sveit. Örugglega fínt.

Ömurlegt samt að missa af geiminu. Að geta ekki falið eigið óöryggi með aulalegum skotum fyrir framan fólkið sjálft og þurfa að gera það frekar ómarkvisst á alnetinu. Drulluskítt alveg.