fimmtudagur, nóvember 10, 2005

Strætóbíllinn brunar

Þangað til í dag hafði ég ekki keyrt um á bílnum mínum svo vikum skipti. Fram að því voru einu not mín fyrir einkabíla þegar ég labbaði framhjá kyrrstæðum bílum, speglaði mig í bílrúðum og hugsaði; ‘jább, ennþá flottur’. Hugsa reyndar líka stundum; ‘djöfull þarf ég að raka mig’ eða ‘djöfull þarf ég í klippingu’ og jafnvel ‘djöfull er ég fullur hégóma að vera að glápa endalaust á sjálfan mig í bílrúðum’. Er að reyna að venja mig af þessu.

Mitt helsta farartæki undanfarið hefur semsagt strætóbíll. Og það hefur verið djöfullegt á köflum. Að vakna snemma, fara út í skítakulda og bíða eftir að miðstöðin í bílnum komist á skrið er rotið. En öllu verra er að standa eins og fuglahræða í brunafrosti og gaddi og bíða eftir strætóbílum. Verst er þó þegar maður kemst inn í béaðan vagninn og lendir á torkennilegum gumpi sem fullkomlega óumbeðinn segir manni frá öllum leiðum strætisvagna á höfuðborgarsvæðinu.

En til allrar lukku komst skrjóðurinn minn í lag í dag og mun ég hér eftir helga líf mitt þeim starfa að keyra um og skutla fólki sem bíður eftir strætóbílum í kulda og trekki til síns heima. Svona eins og Hrói Höttur nútímans nema bara á bíl og í öðruvísi sokkabuxum. Ég mun hefja störf um leið og mamma er búin að sauma búninginn.