mánudagur, október 31, 2005

Gaman að því, gubbinu

Var að heyra sögu af manni sem átti að halda fyrirlestur fyrir börn í 8. bekk. Flakkaði milli skóla og talaði alltaf við heilan árgang um e-ð mjög mikilvægt sem ég man ekki hvað var. Nema hvað, einu sinni var hann haldinn magaónotum slæmum og hálfefins um hvort hann væri yfir höfuð í standi fyrir að halda fyrirlestur. Ákvað þó að láta til skarar skríða með þeim afleiðingum að ákveðið babb kemur í ákveðinn bát í miðjum fyrirlestri. Kall gubbar yfir pontuna fyrir framan 70 8. bekkinga. Náði ekki einu sinni fram á gang. Ekki fékk ég spurnir af viðbrögðum krakkanna en stundum loka ég augunum og ímynda mér þau. Glaður hefði ég viljað upplifa slíkt atvik sem ungur piltur. Glaður.

Hún er nefnilega alveg merkileg þessi athöfn þegar hálfmelt fæða vellur úr munnvikum manna. Göldrum líkust. Svo sammannleg reynsla. Allir kunna góðar sögur af gubbi. Gubb er bara í eðli sínu svo skoplegt að héðan í frá er ég að spá í skrifa bara sögur sem enda á því að einhver gubbar. Það er líka fínn ísbrjótur á mannamótum að tala um gubb. Gubb og veðrið klikka aldrei. Ef maður sér sæta stelpu og er orða vant gæti verið gott að smella smá gubbsögu á maddömuna; ‘Sæl, Krissi hér. Gubbaði einu sinni út um allt í flugvél.’ Eftirleikurinn afar líklega auðveldur.

...

Og ég kann fleiri sögur af gubbi.

Heyrði einu sinni af stelpu sem fékk pestina hroðalegu og hafði ælt og ælt af áfergju. Ætlaði svo að lýsa þessari kvöl og pínu í símtali við ömmu sína en þegar kom að gubbkaflanum ældi hún yfir símann. Lifði sig bara fullmikið inn í frásögnina.

Vinur minn var líka einu sinni þunnur á sunnudegi og bað mig að koma með sér á Kentucky. Hann sótti mig og á miðri leið ælir hann út um opinn gluggann en hefur um leið fulla stjórn á bílnum. Ældi bara á ferð. Hann leysti þetta svo snilldarlega að allt gumsið fór á götuna. Eftir var ælurákin ein sem vísaði veginn á KFC þar sem hann át svo heila máltíð með bestu lyst.

Vá. Mér verður pínu illt í maganum þegar ég skrifa um gubb. Fæ skrítinn fiðring. Er annað hvort ástfanginn eða alveg að fara að kasta upp sjálfur. Kreisti kannski fram fleiri gubbsögur seinna.