föstudagur, október 14, 2005

Loksins, loksins

Jæja, var loksins klukkaður. Nýr stórskemmtilegur alnetsleikur sem allir svölu bloggararnir taka þátt í. Verð að axla smá ábyrgð og vera með, verandi ábyrgur bloggsamfélagsþegn. Ég á víst að telja upp fimm óþægilega hluti.

1. Óþægilegur stóll
2. Dýna með hvössum göddum
3. Gaddadívan
4. Rafstraumstæki (og hrekkjusvínið Pavlov á takkanum)
5. Slím

Jæja, nú er bara að krossleggja fingur og vona að ég sé með allt rétt.

...

Eða að gera þetta almennilega. Fyrst Dr. Gunni var með ætti ég að geta það líka.

1. Alltaf þegar ég reyni að hringja í sjálfan mig er á tali í símanum.
2. Eitt af mínum skammarlegri augnablikum var þegar ég var svona 10 ára. Var þá að klára fótboltaæfingu og svo ansi geðstirður (eins og svo oft þegar ég tapa í fótbolta eða er skítlélegur) að þegar ég sá að pabbi var kominn að sækja mig fór ég beint út í bíl, setti upp ófrýnilegan svip og beið þess að hann kæmi og færi með mig heim. Illur var ég, önugur og ódæll í bílnum á meðan hann spjallaði við Óla Jó og Óla Ká í meistaraflokknum. Ég beið lengi þar sem þeir spjölluðu mikið, hlógu og gjóuðu augunum stundum að mér, hálfglottandi. Loks kom Óli Jó í bílinn til mín, bakkaði glaðhlakkalegur út úr stæðinu og það var þá sem ég fattaði að ég hafði beðið í vitlausum bíl. Helvítis Óli Jó átti líka gráan Súbarú.
3. Þegar ég var smástrákur, fjögurra eður fimm ára gamall, fór ég í feluleik ásamt Snúlla bróður og Hauksa í blokkinni (sem er víst margrómað ljóðskáld í dag og leikstjóri). Ég fann felustað í gamalli skúffu og tók vasaljós með í skúffuna þar sem ég var ögn myrkfælinn. Þessi felustaður var svo framúrskarandi góður að ég þurfti að bíða lengi eftir strákunum og sofnaði að lokum. Blundurinn varði í rúman klukkutíma en þá vakti mamma mig með ljótum látum eftir að örvæntingarfull leit hafði staðið yfir um allt hverfið. Allir sem vettlingi gátu valdið leituðu að mér nema béaðir Snúlli og Hauksi sem fóru bara í pleimó.
4. Einu sinni fór ég í bæinn með hressu fólki þegar módelkvendið Ásdís Rán tók mig á eintal og ræddi um hugsanlegan frama minn sem karlfyrirsæta. Hún lét mig fá nafnspjald og bað mig að mæta í myndatöku til sín. Aldrei mætti ég en fannst þetta samt merkilegur áfangi, ekki síst í ljósi þess að vinir mínir hafa aldrei fengið slíkt tækifæri þó miðaldra maður hafi reyndar viljað leigja einn þeirra kvöld eitt á Hansen.
5. Sem barn lék ég mér stundum að módelum, ekki síst flugvélamódelum. Mikið vatn er runnið til sjávar síðan þá, en þó kemur fyrir í dag að ég sofi hjá módelum.

Þannig er það. Nema þetta með módelin reyndar.