Á eftir bolta koma strípalingar
Þegar ég les Fréttablaðið þessa dagana blasa oft við mér myndir af fáklæddum fótboltastelpum úr liði Vals. Þær eru að fara að keppa bráðum og það virðist vera viðtekin venja hjá konum að fækka fötum fyrir framan alþjóð þegar styttist í mikilvæga leiki. Þetta er svo torkennilegt að mig setur hljóðan.
(Þögn)
En ekki lengi. Þarna eru komnar stelpur sem hafa sennilega náð besta árangri í sögu íslenskrar kvennaknattspyrnu, verið landi og þjóð til stakrar prýði og fengið verðskuldað lof fjölmiðla. Er þá rökrétt framhald að rífa af sér fötin og setja upp sexí svip í mest lesna blaði landsins?
Er enginn í þessu liði sem segir: “Nei, ég vil ekki strípast. Ég er í þessu út af fótboltanum"... ?
Eru þetta rétt skilaboð til yngri stelpna sem æfa (tja... eða æfa ekki) fótbolta? Eða til stráka? Er þetta leið til að öðlast virðingu fótboltaáhangenda? Veldur þess konar mynd því að fleiri mæti á völlinn og öskri: “Áfram Valur!”? Eða mæta menn jafnvel á völlinn og öskra: “Úr að ofan!”? Væri það meira viðeigandi? Ætli það komi njósnarar frá erlendum stórliðum núna eða verður Geiri á Maxíms sá eini sem ‘skátar’?
Veit ekki. Mér finnst þetta törnoff. Vona samt að þær vinni leikinn.
<< Heim