miðvikudagur, apríl 20, 2005

Golden boys

Oft ræða menn hvernig gullaldarlið litu út. Hvernig besta landslið Íslandssögunnar liti út. Ég fann svarið í dag þegar ég ætlaði að læra en gat það ekki vegna einbeitingarskorts. Í mínu liði er enginn Eiður Smári eða Ásgeir Sigurvins. Í mínu liði eru bara menn sem eru tilbúnir að leggja sig fram. Mitt lið er svona:

Spilum 4-3-3 undir stjórn Snorra goða Þorgrímssonar (Njáll í mesta lagi aðstoðarþjálfari, er ekki eins góður í að halda mönnum sáttum og Snorkurinn).

Markmaður: Finnbogi (Urðarköttur) Ásbjarnarson. Ótrúlegur á velli, stór, útsjónarsamur og réttsýnn. Menn gætu líka haft á orði að hann væri eins og köttur í markinu.

Hægri bakvörður: Eiríkur rauði. Reyndar líklegur til að fá rauð spjöld en engu að síður áræðinn leikmaður sem siglt getur upp kantinn og valdið usla.

Miðvörður: Grettir sterki Ásmundarson. Sterkur í loftinu og öflugur í návígum.

Miðvörður: Egill Skalla-Grímsson. Sýnið mér þann mann sem vinnur Egil og Gretti í návígum. Níðvísur Egils gætu ruglað andstæðinginn allverulega í ríminu.

Vinstri bakvörður: Skarphéðinn Njálsson. Örfættur, kappsamur og skynsamur fram á við.

Varnarsinnaður miðjumaður: Víga-Styr Þorgrímsson. Feikilega harður Kjalleklingur sem tæklar eins og bardagamaður.

Miðjumaður: Gunnar Hámundarson á Hlíðarenda. Dregur sig gjarnan til baka og dreifir spilinu. Er þó áræðinn og marksækinn.

Miðjumaður: Helgi Droplaugarson. Teknískur andskoti að austan. Lætur boltann vinna og er síduglegur.

Sóknarmaður, hægra megin: Gísli Súrsson. Kallar ekki allt ömmu sína. Er sókndjarfur, með frábærar fyrirgjafir og snjall í að taka menn á.

Sóknarmaður, vinstra megin: Króka-Refur Steinsson. Ein af stjörnum liðsins. Tækniundur með baneitraðan vinstri fót.

Stormsenterinn: Björn Breiðvíkingakappi Ásbjarnarson. Slúttari af guðs náð. Sterkur í loftinu.

Þetta lið hefði rústað EM 1014 ef menn hefðu haft rænu á að halda slíkt mót...

...

Annars vona ég bara að fólk dæmi mig ekki of hart vegna þessa...