KEF – I. HLUTI
Mér leið eins og glópi. Allt var til einskis. Janni var sofandi við hliðina á mér og ég tók eftir því að Þjóðverjarnir héldu fyrir nef sín enda áfengisbrælan af okkur yfirþyrmandi. Við vorum forvarnarauglýsing holdi klædd. Hvílík byrði að vera svona heimskur. Ég tafsaði að gott væri að fara að láta rútubílstjórann henda okkur út og skömmu seinna stoppaði hann bifreiðina glottandi. Ég vakti Janna og sagði með mínu bitrasta tónfalli: “Komdu, drullum okkur heim.”
Það var sumar. Hlýtt, svo hlýtt. Á sumrin á ég oft erfitt með að skemmta mér eins mikið og lög gera ráð fyrir þar sem ég vinn yfirleitt um helgar. Sömu sögu var að segja af félögum mínum tveimur sem unnu vaktavinnu. En þetta kvöld var tilvalið til skemmtunar. Allir voru lausir og sannarlega til í að sletta úr klaufunum. Mætti jafnvel segja að kappið hafi verið meira en forsjáin. Ég fór í bæinn þetta laugardagskvöld og meðreiðarsveinar mínir hétu Janni og Nói.
Fram eftir kvöldi höfðum við súpt á öli. Í huga okkar voru markmið kvöldsins skýr; að verða ölvaðir, að vera með hortugheit og leiðindi, að gera eitthvað heimskulegt og njóta kvöldsins. Njóta þess að sötra saman án þess að hafa vinnu eða kvenfólk húkandi yfir okkur.
Við fórum fyrst á Kaffibrennsluna og skvettum í okkur illum óþverra. Það var hugur í mönnum. Menn hugsuðu stórt. Einhver minntist á að nú þyrftum við að fara að endurtaka leikinn og fara aftur til útlanda. Sjá leik í enska boltanum eða eitthvað svoleiðis. Menn ræddu jafnvel dagsetningar. Hvenær best hentaði og svona.
Skyndilega komu inn tvær lögulegar dömur sem félagar mínir könnuðust við. Önnur var að vinna með þeim. Hin var sæt. Held hún hafi heitið Helga. Þær settust hjá okkur. Strákarnir voru að vinna í sundlaugum og báðar dömurnar líka svo þau fóru að tala um sundlaugar af kappi. Klór og handsápu og bara ýmislegt sem tengist sundlaugum. Var ekki alveg að hlusta. Óheppni að almenningssundlaugar voru óvart utan míns áhugasviðs þá. Og pakkið rausaði áfram af eldmóði og áhuga um sundlaugar. Sérstaklega vinnufélagi þeirra. Í huga mér blastaði ég hnefanum í andlit hennar svo blóðið flæddi úr nefinu og sagði: “Syntu í þessu, fáviti”, en ég hætti því þegar sæta stelpan fór allt í einu að tala um fótbolta. Og kom í ljós að hún var ekki bara öldungis foxí heldur fótboltakvendi í, að mig minnir, Stjörnunni. Fórum við að ræða spyrnur og innköst og kom á daginn að hún var hin efnilegasta dama. Einhvern veginn fékk ég símann hjá henni og allt. Það var áður en strákunum leiddist þófið og hugðu að brottför.
Næst man ég eftir okkur á Kofa Tómasar frænda. Ég var eiginlega annars hugsi, segjandi: “Jáá, hún var nú allt í lagi, þessi Helga þarna”. En strákarnir voru í öðrum og meiri hugleiðingum. Utanlandsferðin næsta haust átti hug þeirra allan. Ættum við að sjá Arsenal eða Liverpool? Nú eða Newcastle? Fylleríin úti í Englandi sem aldrei urðu að veruleika voru skipulögð í þaula. Þangað til eitthvað loksins þaggaði í Nóa. Góðu heilli. Það sást langan veg að hugmynd hafði fæðst í höfði hans. Við biðum í ofvæni eftir að hann kæmi henni í orð. Augu hans leiftruðu af ánægju þegar hann loksins stumraði út úr sér: “Núna!”. Við Janus litum hvor á annan. Hann hélt áfram: “Við förum núna! Tökum rútuna suður í Keflavík og bombum okkur til Köben fram á mánudag. Það þarf ekkert vegabréf eða neitt. Bara kortin!! Mixum þetta bara núna! Pælið í þessu! Ég er snillingur!! Snillingur!!” Löng þögn fylgdi á eftir enda þurfti að meðtaka ansi mikið. Ég rauf loks þögnina: “Nói, þetta er flónskulegasta hugmynd sem ég hef heyrt og ef þú ert ekki bara mesta flón sem ég hef á ævi minni kynnst þá...”. Lengra komst ég ekki. Janni gaf mér skyndilega en kurteisislega merki um að þegja og sagði rólegur og alvarlegur í bragði: “Bíddu aðeins Gussi. Ræðum þetta aðeins. Ef við gerum þetta ekki núna hvenær þá? Væri þetta ekki bara eitt það nettasta sem maður gæti gert? Krissi, vertu svolítið sponteiníus, maður. Aðeins meiri víðsýni”. Ég svaraði um hæl: “Ha? Hver er Krissi? Ég heiti Gussi, manstu... Gussi!”
<< Heim