mánudagur, mars 28, 2005

Hollráð til bloggmanna

Það er kúnst að rita blogg. Fyrst þarf maður að fá hugmynd að þrugli. Svo þarf að heimfæra þruglið í orð og setningar. Skrifa og skrifa. En í öllu þessu ferli gerast gjarnan skuggalegir hlutir sem tefja skrifarann. Skrifarinn verður þyrstur. Og oftar en ekki, tja... allavega þegar vel liggur á skrifaranum, þá stekkur hann fram og fær sér bjór. Skrifin kalla bara á þorsta. Eðli málsins samkvæmt. Og bloggarinn fær sér bjór og heldur einbeittur áfram skrifum. Þangað til næsti bjór togar hann fram í eldhús. Þá er bloggarinn fyrst kominn á skrið. Og þá fær hann loksins almennilegar hugmyndir. Sem hann skrifar vitanlega. En illu heilli kemur jafnan að fjórða bjórnum og sá er engum skrifara til framdráttar. Eftir hann fer skrifari að þrugla um tilfinningar sínar. Og gjarnan berja tár hans um leið taktfast á lyklaborðinu. Góð regla er að birta aldrei fjórðabjórsblogg á vefsetri sínu. Öðrum sem víti til varnaðar mun ég nú opinbera stutt dæmi um fjórðabjórsblogg sem ég fann í fórum mínum:

“En ókei... Sennilega eru Selfyssingar bar venjulegt fólk. Bara ekki músíakalst fólk. Og algjör óþarfi að bera kala til þeirra bara því þeir hlusta á mótisól, fara á veitaböll og klappa sauðfé..”

Það er trúlega óþarft að segja frá því en mörg féllu tárin kvöldið sem ég reit þennan texta. Ég þurfti meira að segja að kaupa nýtt lyklaborð. En eftir stendur siðferðislegt álitamál sem ég þarf víst að búa við: Hvað var ég að hugsa að taka upp hanskann fyrir helvítis Selfyssinga?

Að öllum Selfyssingum slepptum hef ég samt djúpstæðar áhyggjur af því banvæna kombói sem blogg og bjórþamb mynda. Ég skrifa aldrei almennilega fyrr en eftir einn til tvo kalda. Ef ég væri rithöfundur þyrfti ég að byrja daginn á að skvetta í mig kippu af Löwenbrau eða svo. Hljómar ekki gæfulega þó hluti af mér sé upprifinn af hugmyndinni.

Gömlu, fullu skáldin rétta nú væntanlega upp þumalputta í gröfum sínum og brosa út í annað. Svei þeim, svei þeim.