mánudagur, mars 28, 2005

Rolling Stones

Í gær las ég fræðin eins og maður án rænu. Stútaði Eyrbyggju og Vopnfirðinga sögu. Gekk um bókasafnið eins og ég ætti það. Heyrði lögfræðinemana hvísla hálfskelfkaða: “Rækallinn, lagsi er ári duglegur að lesa...”. Ég bara átti svæðið.

Ég lét svo sjá mig aftur á safninu í dag til að baða mig örlítið í dýrðarljóma gærdagsins. Ætlaði að glugga kannski smá í fræðin líka eins og mér er einum lagið. En ekki varð mér kápan úr því klæðinu. Svo vildi til að ég rakst á bók um Keith Richards í tónlistardeildinni og ákvað að skanna hana létt. Ekki vildi þetta betur til en svo að ég gat ekki lagt hana frá mér og tók hana með upp á lessal. Við þetta glottu grábölvaðir lögfræðinemarnir, ranghvolfdu augunum og skríktu: “Þetta er ekki einu sinni námsbók...”

Stjáni Stones hefði nú samt verið stoltur af mér.

...

Ég verð að viðurkenna að ég hef mjög gaman af Íslendingasögunum. Allavega mörgum þeirra. En Keith kallinn stendur fornköppunum ekkert á sporði, er eiginlega töluvert svalari ef eitthvað er.

Einu sinni sá ég mynd sem byggð var á topplistum og ætla ég nú að brydda upp á þeirri nýbreytni hér á vefsetri mínu.

Topp tíu lagstúfar Rolling Stones að viti Krissa:

10. Far away eyes. Af Some girls sem er frá 1978. Ruddakántrísmellur sem ég hef alltaf fílað úr hófi fram.
9. Dead flowers. Veit ekki alveg af hverju þetta lag er á listanum mínum. Hefði kannski átt að setja eitthvað annað. Jæja, of seint núna.
8. Let’s spend the night together. Gott lag.
7. You can’t always get what you want. Kórinn er snilld og lagið er banvæn Stonesformúlan uppmáluð. Útsetningin er bara svaðaleg.
6. Dandelion. Heyrði að þetta væri um son Keith’s sem dó. Mikið lag.
5. 2000 man. Af Satanic Majesties Request (eða hassplötunni), sem er ein af mínum eftirlætisplötum með Stones. Frábær, súr og rugluð plata og frábært lag.
4. Out of time. Snilldarmelódía. Alvörulag.
3. Salt of the earth. Lokalagið af Beggars Banquet. Öllum partíum ætti að ljúka á þessu lagi.
2. Child of the moon. Uppáhaldslag til margra ára. Ótrúlegur kraftur í því.
1. Paint it black. Maður fær gæsahúð er intróið ómar. Myrk stemmning fönguð. Ótrúlega einföld laglína en það er eitthvað ótrúlegt við stemmninguna...