sunnudagur, mars 13, 2005

How much is beer?

Í dag átti ég leið um vínbúð. Í vínbúðinni hitti ég pilt sem ég var að þjálfa fyrir nokkrum árum. Hann hefur verið níu ára þá en er nú á fyrsta ári í framhaldsskóla. Mætur piltur og alltaf gaman að rekast á hann. En í vínbúðinni virtist hann úti á þekju. Bablaði bara einhverja óskiljanlega mállýsku í símann og ætlaði ekki að taka eftir mér. Læddist að mér sá grunur að maðurinn væri drukkinn. Ég smellti mér í röðina og hann á eftir mér. Enn virtist hann ekki taka eftir mér. Ég sá hvað var í gangi, hætti að horfa á hann og fjárfesti í kippu af Víking bjór. Var að flýta mér eitthvað, hefði með réttu átt að kaupa Tuborg eða Böðvar. Beið svo spakur eftir að röðin kæmi að stráknum og raðaði því hægt og rólega í pokann minn. Drengurinn, sem er sennilega sextán vetra gamall, hélt áfram að búllsjitta í símann en sagði svo algjörlega áttavilltur við afgreiðslukonuna: “How much is beer?”. Gellan á kassanum svaraði hlæjandi að það væri ekki möguleiki á að hún færi að afgreiða gaurinn. Þá segir hann enn á kafi í karakter: “You take card? No? Where is bank?”. Gellan enn ekki að fíla tilraunina.

Gaurnum virtist slétt sama, gafst upp og sneri sér að mér: “Blessaður, Krissi. Hvað er að frétta?”. Drullunettur á því og skvísan á kassanum rak upp stór augu. Kom á daginn að hann hafði verið að tala hollensku í símann en ég lagði til að hann reyndi dönskuna næst. Kvaddi ég hann með virktum og honum datt ekki einu sinni í hug að biðja mig um að kaupa kippu fyrir sig. Hefði sennilega verið of lítil áskorun fyrir hann.

Þetta er ungt, talar hollensku og leikur sér.