laugardagur, mars 05, 2005

Wonderboy

Það væri fáranlegt að segja enn einu sinni frá því að ég er að þjálfa fótboltastráka þannig að ég ætla að sleppa því. En ekki nóg með að vera að þjálfa knattspyrnudurga heldur hef ég það aukinheldur fyrir áhugamál að þjálfa nokkra þeirra í gamanyrðum í hjáverkum. Reyni að rugla aðeins í þeim og þroska skopskyn þeirra.

Og það vill svo til að ég þjálfa eitt níu ára undrabarn í fyndni. Gaur sem reytir af sér grínið og er með fáranlegt vald á kaldhæðni. Hann er bara fyndinn af náttúrunnar hendi. Byrjar setningar sem hann veit ekkert hvernig eiga að enda en nær samt að vera fyndinn. Einu sinni ætlaði hann að klekkja á mér með einni slíkri.
Gaurinn: “Hva, Krissi, ég sá þig nú um daginn... hérna... eitthvað að kyssa kærustuna þína?”
Ég: “Jánú. En er svo sem eitthvað athugavert við það? Eru kærustur ekki til þess að kyssa þær?”
Þarna náði ég aldeilis að stinga upp í hann enda þagði hann lengi, leitandi að réttu svari. Sagði svo: “Jú... jújú, það er alveg rétt. En þú ert bara svo drulluljótur”.

Skák og mát. In dein Geshicht Herr Flanders. Ekkert hægt að segja. Ég játaði mig sigraðan.

Ætla að fara að rifja upp fleiri sögur af þessum kappa til að geta bloggað meira um þetta óskabarn fyndninnar. Samt pottþétt röng málfræði hjá mér í þýsku setningunni...