Helvítis Þórir
Í dag fór ég á bókasafnið að læra. Í anddyrinu var hópur leikskólastráka. Stóðu álengdar svona fjögurra ára gamlir. Þetta voru bara strákar og voru alveg einir og ótrúlega grafkyrrir. Fóstran hafði örugglega farið inn á safn og látið þá bíða. Gaurarnir voru álkulegir mjög og störðu út í loft í pollagöllunum sínum, bíðandi eftir fóstru. Veit ekki hvort þeir hafi verið smeykir eða bara ofurspakir en ekki heyrðist múkk í þeim. Þeir störðu bara. Eins og gamalmenni. Ég labbaði framhjá, nývaknaður, órakaður og eins og varúlfur í framan, í rifnum gallabuxum og allskuggalegur. Fékk óskipta athygli strákanna í pollagöllunum. Þeir þögðu allir nema einn sem sagði lágt: “Hæ”. Svona eins og hann vissi ekki hvort hann ætti að segja ‘hæ’ eða ekki. Þetta föruneyti var svo stórfyndið að ég snarvaknaði til lífsins og svaraði hress í bragði: “Nei, blessaðir strákar, hva... eru ekki allir örugglega í stuði?”. Ekki var að sökum að spyrja og strákarnir svöruðu allir játandi, hátt og snjallt og í kór og allt. Mökkuðust upp og voru með stærilæti og rugl. Fóru að spyrja meðan ég rölti framhjá hvað ég héti og fóru að segja mér hvað þeir hétu. Man að einn hét Orri. Helvíti ferskir. Ég fór rakleiðis upp á lessal og ætlaði að byrja að grúska í fræðum er ég fattaði að setningarfræðibókin góða varð eftir úti í bíl. Sneri við og ætlaði að ná í skrudduna. Mætti auðvitað vinum mínum í anddyrinu og var fóstran nú mætt á svæðið. Segir þá einn hinna vösku sveina: “Heyrðu... hann Þórir er sko ekki í stuði”. Var mér litið á einn guttann sem hét ábyggilega Þórir, og sá að hann hafði sett upp aldeilis skúffaða skeifu. Var bara úrillur og leiðinlegur. Lét það ekki á mig fá og hélt út í bíl að sækja bókina.
Án efa eftirminnilegasta atvik dagsins.
<< Heim