Drakk eiturlyf og fór í fangelsi
Í vikunni bárust þær fréttir af boltagoðinu Eiði Smára að hann hefði verið tekinn fyrir ölvunarakstur. Seinna kom í ljós að hann var undir löglegum mörkum og keyrði sjálfur heim eftir að hafa blásið duglega fyrir bresku löggurnar. Fréttin var því engin frétt. Og ef hann hefði verið fullur væri það kannski engin stórfrétt heldur. Ég myndi allavega finna leið til að vakna á morgnana. Tæki bara einn dag fyrir í einu.
En svona fréttir koma samt við kaunin á mörgum hörðustu stuðningsmönnum Eiðs og einkum yngstu aðdáendum. Þegar ég mætti að þjálfa á þriðjudag var uppi fótur og fit vegna þessa. Strákarnir voru harmi slegnir yfir því að Eiður hefði verið fullur. Einn var orðinn töluvert æstur og gjammaði ítrekað: “Hvað er Eiður að spá að vera að keyra fullur?” Því kallaði ég hópinn saman og útskýrði að fréttin hefði verið uppspuni, nú lægi fyrir að hann hefði alls ekki verið ölvaður. Löggan hefði bara gert athugasemd við hvernig hann keyrði bílinn sinn. Flestum var létt við þetta en sá æsti varð ennþá æstari: “Hvað er Eiður að spá? Kann hann ekki að keyra? Hann er orðinn 27 ára og kann ekki að keyra”. Almenn ánægja var þó með að Eiður sé ekki fullur og vitlaus milli leikja hjá Chelsea. Í dag hitti ég svo yngra árið mitt og var sama uppi á teningnum. Þar sagði einn að Eiður hefði drukkið eiturlyf og væri nú staddur í fangelsi. Það tók langan tíma að leiðrétta þann misskilning svo ekki færi á milli mála að Eiður er enginn dópisti, fyllibytta eða aumingi heldur sómamaður og ágætis framherji.
<< Heim