miðvikudagur, febrúar 16, 2005

Fiskurinn; sverð okkar og skjöldur

Á Íslandi er kalt. Mér er alltaf skítfokkingkalt. Og er þó oft með húfu og allt. En samt búum við hérna og förum alveg út í kuldann, setjum bara ofninn á sjö þegar komið er heim. En það er ekki allt. Á Íslandi er fiskur borðaður í öll mál og eiga landsmenn víst allt helvítis fiski að þakka.

En á gjöfum Njarðar er gjarnan rækilegur hönnunargalli. Og jú, fiskur er skrambi vondur. Af fiski er einvörðu vont bragð. Og það var sennilega af þeim sökum að einhver fann upp fiskrétti. Tilgangur fiskrétta er að deyfa fiskibragðið eins mikið og mögulegt er. En það er ekki nóg. Við erum samt að borða fisk og það er ekki hægt að dulbúa fisk. Á sama hátt og það er ekki hægt að henda horni á froskdýr og halda að það sé nashyrningur.

En íslenska þjóðin stendur föst við sinn keip og hampar fiski í hvívetna. Segir alla okkar afkomu byggja á honum og að fátt sé bragðbetra en soðin ýsa með hamsatólgi. Sjálfur neita ég að taka þátt í þessum hlægilega fiskisirkusi. Í sögunni um nýju föt keisarans stóð einhver sakleysinginn upp og hrópaði sannleikann hátt og snjallt. Og svo er eins farið í minni sögu: “fiskur er fokking vondur, það er megavika og ég stend ekki í þessu”.