fimmtudagur, febrúar 03, 2005

Sá bíræfni, sá fífldjarfi og sá heiðvirði – Seinni hluti

Er líða tók á kvöld voru félagarnir að lýjast. Sá fífldjarfi var þá þegar týndur enda væntanlega farinn á vit frekari fífldirfsku. Því beið hinna tveggja það verkefni að flytja ránsfenginn heim og var leitað að bifreið til leigu. Reyndist það erfitt því ekki var nægt pláss fyrir stólinn í flestum bílanna. Kom þá hópur leðurhomma á vettvang og vildi sá heiðvirði hlaupast á brott með þeim. Sá bíræfni hélt aldeilis ekki og fóru þeir hvergi. Loks fannst stór leigari og fullkomnaði sá bíræfni nú myrkraverk sitt með því að vefa ljótan svikavef. Sagði hann bílstjóranum að hann ætti afmæli og þyrfti að ferja gjafir sínar heim eftir vel heppnað húllumhæ í miðbænum. Sá heiðvirði hristi enn hausinn, hafði gert það sem hann gat til að afstýra óskunda þetta kvöld en hvorki haft til þess erindi né erfiði. Misgjörðir kvöldsins sátu í honum, og á sama andartaki og leigubílstjórinn kastaði afmæliskveðju á þann bíræfna sem glotti við leit sá heiðvirði dapur út um afturglugga bílsins á ljósadýrð stórborgarinnar. Sem ljósin fjarlægðust felldi sá heiðvirði lítið tár. Tár heiðvirðs manns er hafði haldið tryggð við skúrka og ómenni.

Lýkur þar með sögu hins heiðvirða, bíræfna og fífldjarfa.