miðvikudagur, febrúar 16, 2005

Bolludagssull

Þegar ég var smár drengur át ég ávallt bollur af mikilli lyst á bolludag. Bæði rjómabollur og svo fiskibollur í kvöldmatinn. Nú er af sem áður var. Mér finnst fiskibollur ekkert sérstakar og er eiginlega hættur að fíla rjómabollur. Þær eru subbulegur andskoti. Því hef ég undanfarið verið svolítið utangáttar á bolludag. Hef skyggnst með augum utangarðsmanns inn í gleðina sem rjómabollan hefur í för með sér. Fyrir mér hafði dagurinn glatað þýðingu sinni. Fyrir rúmum tveimur árum sátum við Svenni bróðir einmitt í þungum þönkum og skeggræddum þessa hvimleiðu þróun mála. En þá laust lausninni í höfuð okkar. Auðvitað! Bolla! Svarið hafði verið fyrir framan nefið á okkur allan tímann!

Í dag tökum við á móti bolludeginum með því að sanka að okkur áfengisleifum, söfum og ávöxtum og blöndum í góða bollu. Í ár var meira að segja slegið til bolluveislu heima hjá Bollu-Gaua, hressbróður Sveins. Blandað var í sjö bollur. Sex þeirra voru afbragð en aspasbollan stóð ekki undir væntingum. Fullmikið tónik í henni fyrir minn smekk. Sullinu lauk um miðnætti þegar greindir menn gerðu sér grein fyrir að bolludeginum væri lokið samkvæmt almanaki.

Ég hef því heimt bolludaginn úr helju og hlakka nú ávallt til er hann ber að dyrum.