föstudagur, febrúar 04, 2005

Ray

Þegar ég var tólf ára gerðist ég manískur aðdáandi sixtísrokkaranna í the Kinks. Ég keypti alla Kinks-diska sem falir voru, kortlagði textanna og stúderaði meira að segja ævisögu forsprakkans, Raymonds Douglas Davies. Stundum reyndi ég að spila þessa tóna innan um jafnaldra en var yfirleitt ávítaður harðlega fyrir vikið. Einu sinni tóku einhverjar stelpur Kinks-spóluna mína úr tækinu, hentu í mig og smelltu Ace of base eða Whigfield á. Man að ég fór næstum því að gráta. Ekki yfir því að hafa verið beittur rangindum heldur því mér fannst heimurinn vera svo innilega á mis.

Allar götur síðan hefur Kinks-árátta mín verið við lýði. Textagerð Ray Davies á sér vart hliðstæðu og helstu plötur gullaldarára Kinks eru svívirðilega ferskar. Hef sennilega alltaf fílað Kinks betur en Stones eða Bítlana. Því var ég glaður þegar ég frétti einhvern tíma að Ray Davies ætlaði að halda tónleika á Íslandi. Man ekki hvaða ár þetta var en festivalið hét Reykjavík Music Festival og konsertinn var í Höllinni. Ég las ævisöguna aftur af þessu tilefni. Og tónleikarnir voru frábærir, upplifunin mikil að berja gamla kallinn augum. Kallinn sem rak einu sinni alla úr sveitinni nema sjálfan sig. Kallinn sem fór einu sinni ekki úr rúminu sínu í tíu daga þar til hann byrjaði allt í einu að hlaupa um Lundúnaborg endilanga uns hann fann umboðsmanninn sinn sem hann svo barði í stöppu.

Eftir tónleikana fór ég beint heim, þurfti að þjálfa snemma um morguninn. Um miðja nótt byrjaði síminn þó að öskra og sá ég að þar var á ferð félagi minn, sem greinilega var á djamminu og hafði reyndar vakið mig um svipað leyti helgina áður. Var ég að vonum ósáttur. Félaginn náði þó að stumra út úr sér: “Ég er hérna að rölta Laugaveginn og er ekki frá því að Kinksarinn vinur þinn sé bara nokkrum skrefum á undan mér”. Ekki fannst mér frásögnin trúverðug enda var þessi kumpáni minn þekktur fyrir óknytti er hann brá sér á galeiðuna. Því bað ég durginn um að setja helvítið í símann og hélt svo áfram að bölva honum fyrir símtöl um miðjar nætur en komst ekki langt með það. Heyrði nefnilega strax í félaganum: “Mr. Davies, I’m sorry to interrupt you but I’ve got the biggest Kinks fan in Iceland on the phone. He just want’s to say hi”. Ekki var að sökum að spyrja, goðið mætti eldhresst í símann, kastaði kveðju og bað fyrir góða nótt. Sjálfur svaf ég reyndar eitthvað lítið en var þó kampakátur með símtalið.

Annars höfum við glatað svolítið sambandi eftir þetta, ég og Ray. Frétti samt síðast af honum í New York er hann var að elta uppi þjóf og fékk byssukúlu í lærið. Rúmlega sextugur nagli að elta gangstera New York borgar. Fínn kall hann Ray.