Sá bíræfni, sá fífldjarfi og sá heiðvirði – Fyrri hluti
Eitt sinn voru þrír menn á gangi. Skulu nöfn þeirra liggja milli hluta enda væri annað orðstír þeirra til minnkunar. Var einn þeirra bíræfinn mjög, annar ginningarfífl mikið og sá þriðji heiðvirður maður í óæskilegum félagsskap. Fengu þeir þá flugu í höfuðið að fróðlegt yrði að sjá hvort þeir gætu þrætt allan Laugaveginn á laugardagskvöldi og fengið sér bjór á öllum knæpum sem á vegi þeirra yrðu. Hélt þetta föruneyti strax af stað og mælti einn þeirra: “Jæja, þá erum við lagðir af stað.” Annar svaraði: “Ég hefði nú haldið það, Daníel. Og ef við erum ekki lagðir af stað þá heiti ég ekki Jóhann Skagfjörð.” Leið á ferðina og fengu piltar sér bjór á mörgum mætum bjórbúllum. Smakkaðist bjórinn vel og urðu kappar ölreifir og vitlausir ansi skjótt. Fór sá bíræfni skyndilega að bera sig býsna mannalega, vildi ólmur sanna kænsku sína í eitt skipti fyrir öll og bað félaga sína að villa um fyrir barþjóni einnar knæpunnar. Grandalausir leystu félagarnir verkefnið en á meðan greip hinn bíræfni gullfallegan leðurstól og rogaðist með hann út af knæpunni. Kom þetta heiðvirðum félögum hans í opna skjöldu. Hófu þessir ölvuðu menn þá að renna sér á stólnum (sem var jú á hjólum) niður Laugaveginn og geymdu gripinn í skúmaskotum miðbæjarins er þeir stukku inn á öldurhúsin og sumbluðu sem verstu raftar. Á einni þeirra reyndi stólaþjófurinn bíræfni að eggja félagana til frekari rána og beit annar á agnið. Þegar bjórinn var kláraður og komið var út báru þeir saman ránsfenginn og kom í ljós að hinn bíræfni hafði hnuplað rándýru málverki af einum veggja knæpunnar, sá fífldjarfi stóð sigri hrósandi með vasa fulla af bréfþurrkum og sá heiðvirði hristi hausinn yfir atferli félaga sinna. Ránsfengurinn allur var geymdur sem fyrr í myrku skúmaskoti og ferðinni haldið áfram.
Komið var að enn annarri knæpu og sá hinn bíræfni sér nú leik á borði og gerði óskammfeilna tilraun til að þykjast vera af frönskum ættum. Tilgangur þessa var illur, að blekkja starfsfólkið. Reyndi hann að panta bjór á tungumáli sem hljómaði eins og franska en var þó einungis tilviljanakennt þrugl og hin mesta soramállýska. Illa gekk því að panta og var hann fastur í karakternum svo þetta uppátæki yrði honum ekki til háðungar. Gekk þá sá heiðvirði að honum, gaf honum vænan kinnhest og kallaði “Jean-Pierre!”. Hinum bíræfna brá, var ekki skemmt en reyndi að halda andliti og bulla meira á tungumáli sínu. Laut sá heiðvirði honum aftur kinnhest með sömu orðum og pantaði loks þrjá bjóra. Hlaut sá bíræfni litla sæmd af þessu atviki.
<< Heim