Og enn um heimskupör
Hef alltaf haft horn í síðu jólaskrauts. Hef lengi bölvað jólaskrauti, sett upp illilegan svip þegar ég sé slíkt skraut og jafnvel grýtt smásteinum í það. Ég var meira að segja einu sinni handjárnaður af lögreglunni vegna hneigða minna í átt jólaskrauts.
Eitt sinn lærði ég eins og maður galinn fyrir próf í skólanum. Daginn sem þeim lauk, rétt fyrir jól man ég, var ég illa sofinn og ringlaður en afar feginn. Fagnaði ég próflokum allduglega, kneyfði mjöð og var glaður í bragði. Minn helsti bróðir í svallförum þessum var bróðir Dannsi sem líka hafði lokið prófum sama dag. Enduðum við í stúdentaveislu, sennilega að óska fólki til lukku með húfur eins og siður er í stúdentaveislum. Var veislan á Hraunholti nokkru og að henni lokinni gengum við Dannsi heim, reyndar með unga stúdínu upp á arminn okkur til upplyftingar. Er hún sómakær kona og því mun nafn hennar liggja milli hluta. Gengum við heim sem áður segir. Var það langur gangur. Man að ég gekk einu sinni heim af Astro með Jóa Skag eftir framhaldsskólaball og var tvo og hálfan tíma á leiðinni. Er það önnur saga. Í þessari sögu stoppaði ég einhvers staðar á leiðinni bitur og illur í svipmóti. Var litið á eitthvert ljótasta hús bæjarins, þakið smekklausu jólaskrauti; sveinki á toppnum, seríur hvert sem litið var, snjókarlar, hreindýr og annar ósómi. Hafði greinilega tekið heimilisfólk 2-3 vikur að koma þessu upp. Þarna var ég orðinn ölreifur og ódæll, rænulaus og vitlaus auk þess að kenndir mínar í garð jólaskrauts brutust þarna fram. Á þessu örlagaríka augnabliki var mér litið til Snæfinns snjókarls sem bundinn var fastur við húsið. Snæfinnur ákallaði mig og er ég leit í augu hans heyrði ég hann segja: “Ég er bara dapur snjókarl og er hér haldið nauðugum af illræmdum húsbónda mínum. Bara ef einhver hefði kjark til að bjarga mér... jæja, sjáumst kumpáni...” Ég stóð hugsi um stund en stakk svo upp á því að við myndum hafa Snæfinn með á brott. Bjóst við að einhver segði mér að halda kjafti og halda áfram göngunni. Bróðir Dannsi var hins vegar sama sinnis og hóf að naga snúrur Snæfinns af miklum móð svo hægt væri að flytja karlinn. Danni var lengi að naga og okkur varð brátt drullukalt. Hinn glaðhlakkalegi Snæfinnur losnaði þó loks úr viðjum hins illa húsbónda Jólalands, vippaði ég karlinum góða á bakið og héldum við áfram heim á leið. Leit reyndar við og kallaði til Rúdolfs sem trónaði efstur á þakinu að hann skyldi eigi örvænta enda yrði næsti björgunarleiðangur helgaður honum. Við nálguðumst heimaslóðir óðfluga. Á leiðinni tókum við Moggabunka sem bíða átti eftirvæntingafulls blaðbera í morgunsárið og bárum hann auk Snæfinns. Okkur leið óneitanlega eins og hetjum. Þessi för var sem frægðarför. Snæfinni var bjargað úr helsi jólafasistanna.
En ekki var Adam langdvölum í Paradís. Á Brekkugötunni kom lögreglubíll upp að okkur þremenningunum og voru laganna verðir vondir í bragði. Tókum við Dannsi til fóta vorra en ekki kom að sök, bölvuð svínin náðu okkur og handjárnuðu svo sár mynduðust við úlnliði okkar. Dundu á okkur spurningar. Hvaðan kemur Snæfinnur? Berið þið út Moggann? Í öllu spurningaflóðinu buguðumst við og sögðum þeim sólarsöguna. Snæfinnur var settur í skottið á löggubílnum og við beint í bílinn. Snæbbi átti að fara aftur til síns heima. Löggurnar spurðu því næst hvar við hefðum fundið hann. Við sögðumst ekki vita hvað gatan hét. Löggurnar urðu ofsareiðar og endurtóku spurningana hatrammir í bragði. Við sögðumst ekkert vita enda vissum við ekki hvað gatan hét. Endaði á því að einhver sagði að þetta væri í færeyska hverfinu. Var önnur löggan þá brjáluð og hótaði okkur vist í fangageymslum. Hin löggan sagðist þó vita hvar færeyska hverfið var og fórum við þangað. Það var þá sem ég lærði hvar færeyska hverfið er. Snæfinni var skilað og löggurnar ætluðu að henda okkur heim. Klukkan var að nálgast sex. Segir þá löggi: “Jæja, hvar er best að henda ykkur út? Við sundlaugina?”. Við svöruðum: “Já, snilld væri það. Væri fínt að kíkja í smá sund áður en við förum heim”. Löggurnar brugðust hinar verstu við og báðu okkur um að lofa að gera það ekki. Benti ég þá á hús með ljótu jólaskrauti og bað þá um að henda okkur út þar. Gæti verið gaman að taka meira skraut. Löggurnar urðu draugfúlar við það og báðu okkur um að taka ekki meira skraut. Fórum við út hjá sundlauginni og svo heim að sofa.
Lýkur þar með sögunni um Snæfinn. Ku hún vera hluti af sagnabálkinum “Heimskupör Krissa – The Greatest Hits” en áður hafa birst heimskulegar sögur í svipuðum dúr á síðunni. Mórall sögunnar er þó umdeilanlegur. Skiptast fræðimenn jafnvel í tvær fylkingar. Vilja sumir meina að óráðlegt sé að vera fullur og heimskur og að ekki sé til eftirbreytni að stela. Vilja aðrir meina að jólaskraut sé til trafala og að löggur skorti oft skilning og víðsýni í málum sem þessum. Hallast ég að því síðarnefnda og tel fullvíst að ég njóti stuðnings títtnefnds Snæfinns í því málinu.
<< Heim