Hið beiska óbragð ósigurs
Í dag fór ég á Stælinn og át mat með félögum mínum í kveðjuskyni við einn þeirra sem er að fara til útlanda. Held hann sé að fara að taka þátt í Amazing Race eitthvað, var ekki alveg að hlusta. Veit samt að hann fer til New York, Bólivíu og á Galapagoseyjar. Fengum við honum urmul fjár og bað ég hann að setja það allt á töluna 13 í spilavítinu í Quito. Segi síðar frá hvernig það gekk. Var spaugilegt atvik rifjað upp á Stælnum. Atvik frá því er við vorum í menntaskóla.
Eitt sinn var heljarinnar ræðukeppni haldin í menntaskólanum okkar og skráðum við félagarnir okkur til leiks. Gekk vonum framar og unnum við tvær keppnir og tryggðum okkur þar með sæti í úrslitum. Þó, en sér í lagi þar sem ég segi sjálfur frá vorum við langbesta liðið í keppninni. Og vorum klárir með allar okkar ræður sem sennilega voru frekar einkenndar af aulafyndni en ræðusnilld. Fullt af fólki ætlaði að mæta og mikil stemmning var í skólanum. Ákváðum við liðsmenn að kíkja á Stælinn rétt fyrir keppni, fá okkur borgara og hrista liðið saman. Gekk ágætlega að panta og hlömmuðum við okkur niður með dýrindis málsverð fyrir framan okkur. Ég stökk á salerni en kom brátt til baka og henti fram svona eins og einum brandara er ég settist aftur. Strákarnir sprungu úr hlátri. Mér fannst ég vera orðinn funheitur og smellti á þá öðrum brandara og hlógu þeir á ný eins og vitlausir væru. Sigri hrósandi fékk ég mér þá sopa af ísköldu kókinu mínu enda verður maður oft þyrstur eftir að hafa sagt marga góða brandara. Fékk mér stærðarinnar gúlp en komst skjótt að því að frummælandi liðsins hafði sett eins og ígildi hálfs saltstauks í kókið og voru piltarnir víst einungis hlæjandi að þeim illa hrekk en ekki hótfyndni minni. Alltaf gott að hafa djúpan frummælanda. Ég fór aftur inn á klósett og ældi. Fór svo held ég hálfleiðina með að klára matinn minn en þá var brunað á keppnisstað. Keppnin átti að byrja klukkan átta en þá var ég fastur á salerninu ælandi máltíð 82 af Stælnum. Kom loks náfölur fram og flutti ræðurnar mínar. Við töpuðum keppninni. Féllum á eigin bragði. Og djöfull var það drulluvont bragð.
<< Heim