sunnudagur, febrúar 20, 2005

Ædolið

Mér hefur tekist að fara illilega á mis við ædolfárið. Er ekki með Stöð tvö eða neitt. Hefur heldur ekki fundist kúl að horfa á svona karókíkeppni. Það er líka dýru verði keypt að vera kúl. T.d. bannað að horfa á Júróvísjon, ædolið og myndir með Hugh Grant. En að öllu kúli slepptu er ótrúlegt hversu mikinn sjarma þessi dagskráliður virðist hafa.

Og einhvern veginn kemst maður bara ekki hjá því að vita hver staða mála í ædolinu er. Það ekki síst fyrir að nokkrir átta ára lærisveinar mínir í knattspyrnunni eru helteknir af því. Láta mann alltaf vita hver datt út síðast og svona. Í dag tjáði einn mér meira að segja hvernig hann ætlaði að vinna ædolið þegar hann fengi aldur til að taka þátt. Ætlaði bara að taka FH-lögin. Hljómar barnalegt í fyrstu en kænskubragð ef vel er að gáð. Það þarf bara að sjá þetta fyrir sér. Gaur í FH-treyju í Smáralind, intróið ómaði fyrst; ‘bamm-bamm-bamm-bamm’ og svo “Ég-vil-vera, þú-vilt-vera, allir-vilja-vera í FH...” Þú kýst ekki svoleiðis menn út.

Kappinn sagði þó spakur í bragði að hann myndi ekki taka FH-lag í úrslitum. Þá tæki hann þjóðsönginn. Ótrúlegt útspil. Hvernig getur gaurinn tapað ef hann vefur sig í þjóðfánann og syngur lofsönginn? Hvílíkur refur! Sannfærði durgur mig um að með réttu lagavali gætu allir unnið ædolið.