sunnudagur, febrúar 20, 2005

Hrafn og Kiljan

Vinur minn lenti einu sinni í partíi hjá dóttur Hrafns Gunnlaugssonar. Víst frekar leiðinlegu partíi. En það er ekki öll sagan. Þessi vinur minn átti nefnilega annan vin sem var stelsjúkur. Og það á svo háu stigi að það var hálfvandræðalegt. Ég sá hann einhverju sinni stela reykskynjara úr stigagangi í blokk. Bara til þess að taka hann. Sá stelsjúki hringdi í gaurinn í partíinu og ætlaði að fara á límingunum er hann frétti að félaginn væri heima hjá Hrafni Gunnlaugssyni. Egndi hann ítrekað til að taka eitthvað. Bara eitthvað. Fyrir sig.

Tekið skal fram að stráksi er staddur var á hýbýli Hrafns Gunnlaugssonar er afar mætur drengur og bæði greindur og réttsýnn. En einhvern veginn fékk sá stelsjúki hann til að láta slag standa. Og okkar maður í teitinu afsakaði sig og þóttist á klósettið. Fór í miklu fáti inn í herbergi þar sem ljósrofinn var á eitthvað ókristilegum stað og allt var í myrkri. Hann var yfirspenntur og hræddur og þreif með sér einhverja litla mynd í ramma sem hann setti í úlpuvasann. Fór fram og hélt áfram að sötra ölið eins og ekkert hefði í skorist. Fór fljótlega í annað partí og gleymdi í ölvun sinni blessaðri myndinni.

Seinna um kvöldið hringdi sá stelsjúki í þennan vin sinn sem þá var staddur í bænum ásamt hópi fólks. Spurði stelsjúkur hvort þýfi hefði fylgt honum úr húsi Hrafns Gunnlaugssonar. Þá fyrst uppgötvaði kappinn að hann var enn með myndina í vasanum, þreif hana upp og virti hana fyrir sér. Kemur þá fyrst á daginn að myndin var af Hrafni takandi í spaðann á Halldóri Kiljan Laxness. Á henni sást Hrafn horfa með virðingaraugum og lotningu á meistarann og kunni klárlega vel að meta félagsskapinn. Tvisvar ég hef séð Hrafn tala um Laxness í viðtölum og þar skafaði hann ekki aldeilis utan af aðdáun sinni á skáldinu. Mínum réttsýna vini, sem þarna stóð í miðbænum með mynd af Hrafni Gunnlaugssyni og Halldóri Laxness, leist ekki á blikuna. Hann hafði grun um að hann hefði rænt dýrmætustu eign Hrafns Gunnlaugssonar. Hinn stelsjúki bar sig hins vegar vel og var allra manna kátastur þetta kvöld.

Niðurlög sögunnar eru þó á þá leið að vinurinn mætti seinna á vettvang glæpsins, þ.e. heimili Hrafns Gunnlaugssonar, og henti myndinni á einhvern stól þegar enginn sá. Samviskubitið hafði kjamsað á honum eins og fjallaljón á hýenu. Ég á í engum vandræðum með að ímynda mér viðbrögð Hrafns Gunnlaugssonar þegar hann uppgötvaði að myndin góða hafði skilað sér aftur eftir útlegðina.