laugardagur, mars 05, 2005

Íslenskur texti: Guðni Kolbeinsson

RÚV er magnað fyrirbæri. Hvað er til dæmis málið með þulurnar? Hvaða tilgangi þjóna þær? Af hverju er dagskránni ekki smellt á helvítis skjáinn eins og á öðrum stöðvum? Af hverju eru landsmenn að borga undir þetta rugl? Hvaðan kemur ljóshærði þulugaurinn með gleraugun? Er hann þarna kannski bara svo fólk fari ekki að agnúast út í að þulurnar séu eingöngu þrusugellur?

Fór aðeins út af sporinu. Ætlaði ekkert að skrifa um þulur. Held ég byrji bara aftur.

RÚV er magnað fyrirbæri. Þegar ég var lítill sat ég oftar en ekki límdur við skjáinn og horfði á bandaríska þætti á RÚV. Eða Stöð eitt eins stöðin heitir þegar maður er krakki. Hetjurnar mínar voru menn eins og Dwayne Wayne úr Vistaskiptum og Parker Lewis úr Skálkum á skólabekk. Glaður í bragði gerði ég svo stólpagrín að heimskupörum manna eins og Cliff Clavin úr Staupasteini og Barða Hamar úr Barði Hamar (Barði Hamar var hæstaréttardómari). En um leið og maður rifjar upp þessa gömlu snilldarþætti er manni jafnframt fyrirmunað að muna hvað þeir hétu á frummálinu. Íslensku þýðingarnar hreinlega tröllriðu öllu. Meira að segja kjánalegar þýðingar eins og Köttur í bóli bjarnar (var ekki dýralífsþáttur) og Hasar á heimavelli eru sem órjúfanlegar æsku minni.

Því spyr ég; hvað varð um gömlu, góðu þýðendurna? Mín skoðun er sú að allar þáttaraðir sem sýndar eru á Íslandi eigi að fara í gegnum kalla eins og Guðna Kolbeins, Veturliða Guðna og þessa refi sem þýddu allt í gamla daga. Þá horfðum við ekki á ‘Will and Grace’ heldur á ‘Vilhjálm og Grétu’. Ekki á ‘Everybody loves Raymond’ heldur ‘Ys, þys og argaþras hjá Rögnvaldi’ eða eitthvað álíka. Ekki á ‘King of Queens’ heldur ‘Grallaraspóar í stórborginni’ eða jafnvel ‘Hvar er pósturinn?’.

Hvet hér með sjónvarpsstöðvar landsins til að gera bragarbót á þessu í hvelli.