Einu sinni í biðröð
Við vorum þrír saman. Bestu vinir í menntó. Á öðru ári í Flensborg. Og höfðum manað okkur upp í að fara til Lundúna eina helgi. Ekki nema sextán og sautján ára en fengum samt að fara. Örugglega allir svona lúmst skíthræddir innst inni en enginn þorði að viðra slíkt væl. Ætluðum að bera okkur mannalega, detta í það og fara á fótboltaleik.
Fyrsta stopp var einhver afgreiðsla hjá Hótel Loftleiðum þar sem við vonuðumst eftir að fá miðana okkar (köllum það það, ég hafði ekki hugmynd um hvað við vorum að gera og hef ekki heldur í dag). Þetta var daginn áður en við fórum út. Mættum rennblautir bakvið eyru á bíl Danna sem var sá eini sem var með bílpróf. Rötuðum inn í Reykjavík og allt. Þegar inn var komið spurðum við eitthvað kvendi hvert við ættum að fara og enduðum vel sauðalegir í biðröð umkringdir bisnessmönnum og allsherjarspöðum. Við vorum á leið til útlanda. Alveg einir.
Stressið var þó farið að láta á sér kræla. Vorum drullusmeykir. Og enginn okkar sagði orð í röðinni. Held að við höfum allir verið að hugsa hvað við áttum að segja þegar röðin kæmi að okkur. Höfðum ekki hugmynd um hvernig við áttum að haga okkur. Biðin var stutt, allt gekk ansi skjótt fyrir sig. Feiti, gráhærði kallinn í jakkafötunum á undan okkur var senn búinn og það var komið að okkur. Við litum hver á annan. Þögnin var hálfpínleg. Við létum afgreiðslukonuna um að rjúfa hana: “Jááá, hva... get ég aðstoðað?”. Ég vonaði innilega að strákarnir myndu segja eitthvað. Bara eitthvað. Ég leit á Danna. Hann vissi hvað ætti að segja. Hann hafði oft farið til útlanda. En Danni þagði. Og loksins, þegar þetta var allt saman orðið skítvandræðalegt, heyrðist taut frá Jóa: “Hérna... hvað... voruð þið ekki að gefa hvolpa?”.
Þessi setning reyndist ferðin í hnotskurn. The rest is history. Heimsborgin Lundúnir beið okkar.
To be continued...
<< Heim