laugardagur, mars 05, 2005

First we take Manhattan

Var að rifjast upp fyrir mér gamall ‘praktíkal djókur’ sem aðeins fór úr böndunum. Mundi hann er ég fór á Bókasafn Hafnarfjarðar í dag.

Æxlaðist það svo að einn dag fór ég á safnið að lesa. Hitti þar fyrir kunningja góðan, Randver Randversson sem þenur bassagítarinn með þrusugrúppunni Manhattan. Hann les líka heimspeki. Randver var vondur og illa upplagður þennan daginn og var greinilega búinn að læra lengi uppi á lessal þegar ég ætlaði sjálfur að koma sterkur inn og lesa grimmt. Grafarþögn var inni og fullt af fólki þegar Randi hóf að henda í mig bréfum og strokleðri. Í sumum bréfanna voru illar hótanir og gekk mér illa að lesa undir þessu ljóta ofbeldi. Svo eirðarlaus var Randi þennan dag að hann fór ansi skjótt fram í pásu en var þá búinn að skemma fyrir mér kortérslærdóm með truflunum sem voru við það að æra óstöðugan. Þegar Randi var farinn ákvað ég að ná fram hefndum, hrifsaði glósurnar hans (reyndar ekki nema þrjú blöð), fór niður á aðra hæð og ljósritaði þær. Því næst reif ég þær í litlar tætlur og dreifði yfir námsbækur hans. Geymdi sjálfur upprunalegu glósurnar í töskunni minni og hélt sannarlega að þarna hefði ég náð mér niðri á Randa í eitt skipti fyrir öll. Fór svo að læra en ekkert bólaði á téðum Randa. Leið langur tími og gerði ég sjálfur hlé á lærdómnum. Fór niður á aðra hæð að lesa blöðin og svona. Sá þá skyndilega á eftir Randa á leið út af safninu með tösku á bakinu og í fullum skrúða á leið til vinnu. Ég kallaði á hann og sneri hann við fýldur á svip. Ég reyndi að útskýra grínið mitt góða en gekk illa og Randi neitaði að lokum að taka við glósunum sem voru enn uppi á þriðju hæð í töskunni minni. Hann sagðist ætla að prenta þær sjálfur út aftur.

Er óhætt að segja að hrekkur þessi hafi misheppnast. Heppnuðust þeir betur hrekkirnir í gamla daga er annar Manhattansveinn, Svavar Örn, varð fyrir barðinu á okkur félögunum. Spurning um að segja þær sögur einhvern tímann. Enda ljóst að ég fæ hvort sem er ekkert jólakortið frá Manhattanköllum.