sunnudagur, mars 13, 2005

Þeir kölluðu mig Sprett

Þegar ég var lítill var ég langfljótastur í bekknum. Stútaði öllum skólahlaupum og var eftirlæti leikfimikennara. Hljóp eins hratt og sumarið. Og þegar krakkarnir fóru í svona ‘kyss-kyss-og-útaf’ leiki á kvöldin kom það sér vel að hlaupa hratt. Hinir strákarnir hlupu gjarnan eins og fætur toguðu þegar ljótu stelpurnar reyndu að klukka þá en hægðu pínu á sér þegar sætu stelpurnar reyndu að ná þeim. En ekki ég. Ég hljóp alltaf eins ég væri á Ólympíuleikunum og engin þeirra náði mér. Aldrei. Tók leikinn kannski of alvarlega. Og stelpurnar kvörtuðu sáran: “Þú hleypur alltaf svo hratt! Það er aldrei hægt að ná þér!”. Voru jafnvel skítfúlar út í mig. Enda alltaf móðar og másandi eftir öll hlaupin. Skildu ekkert í mér, leikurinn átti jú að ganga út á kossa. Og stundum heimtuðu þær svör. “Af hverju leyfirðu okkur aldrei að ná þér?” Þá hljóp ég bara ennþá hraðar. Eða fór undan í flæmingi: “Ég er hættur, ætla í fótbolta. Komiði, strákar”. Svo fórum við í fótbolta. Ég var Klinsmann.

...

Það merkilega við þetta allt saman og jafnvel vandræðalega er að ég er ekki frá því að þessi aðferðafræði við kvennaveiðar sé jafnvel enn við lýði í dag...