Rán í Lundúnum
Fórum í búðir einn daginn. Mátti ekki spyrjast út að mektarmenn eins og við hefðum ekki gert hagstæð kaup í heimsborginni Lundúnum. Og Jóa langaði í buxur. Svo mikið að hann fór og mátaði buxur. Man ekki hvað búðin hét.
Sérstakt áhugamál okkar í ferðinni var að mastera enska tungu, þau orð sem innfæddir brúkuðu sem og hreiminn kynngimagnaða. En við höfðum jafnframt gríðarlegar ranghugmyndir um hreim Lundúnarborgara. Við höfðum t.d. nýlega óverdósað á kvikmyndinni Trainspotting og var hreimur okkur stundum markaður af henni.
Og sennilega vorum við ekki eins svalir og ég vildi að við hefðum verið í þessari ferð. Vorum þess í stað varkárir og yfirleitt alltaf saman er við spókuðum okkur í búðunum á Oxford Street. Og þegar Jói mátaði buxurnar vorum við Danni í búðinni á verði. Svo allt færi örugglega vel fram. En allt kom fyrir ekki. Þegar Jói mætti á afgreiðsluborðið staðráðinn í kaupa buxurnar ætlaði allt skyndilega um koll að keyra. Allt í einu byrjaði hann að anda hratt, þuklaði á sjálfum sér af öllum sínum mætti og okkur Danna varð ljóst að eitthvað amaði að. Í stað þess að borga fyrir buxurnar emjaði Jói af slíkri áfergju að Lundúnir skulfu og með skoskasta hreim sem ég hef heyrt: “I’ve been bloddy robbed!!!!”. Starfsfólkinu brá í brún og fólk skimaði eftir bíræfnum þjófnum án árangurs. Ringulreiðin var við það að gera út af við viðstadda þegar það heyrðist lágt í Jóa: “Nei, það er hér.” Og til allrar lukku fannst veskið í rassvasa Jóa. Greiddi hann fyrir buxurnar og þakkaði pent fyrir sig.
Fyrir öllu að enginn hlaut skaða af og Jói sneri stoltur heim með þessar líka fínu buxur.
<< Heim