mánudagur, mars 28, 2005

Um mannanöfn

Krakkar heita frumlegum nöfnum nú til dags. Aþena, Thea, Jakobínarína, Atissa, Þangbrandur, Mundheiður, Eneka, Októ og Brynsteinn. Já, jafnvel Pálmi. Þetta er sérstök þróun. Spái því að eftir 30 ár verði ekki gert grín að krökkum sem heita Cýrus (til eru krakkar sem heita Cýrus) heldur verði gert stólpagrín að fíflunum sem heita gömlu, dorkí nöfnunum. “Hí á Magnús, hí á Magnús”, verða sagt við klifurgrindina. Og jafnvel “Hei, Haraldur, hvað... fæddistu á miðöldum? Tíhíhí”. Já, tíhíhí verður sagt, tíhíhí.

Sjálfur hef ég lengi burðast með þann kross að heita Kristmundur. Nafn, sem minnir meira á prest í Dalatangasókn á ofanverðri nítjándu öld en rokkaðan sólótónlistarmann á þeirri tuttugustuogfyrstu eins og mig. Fyrir vikið hef ég þurft að svara kallinu þegar ýmis skrýtin nöfn hafa verið hrópuð í gegnum tíðina. Dóki og Elding eru sennilega frægust þeirra. Spjátrungarnir sem ég þjálfa hafa líka kallað mig mörgum nöfnum. Nafnið Frissi ber oft á góma í viðskiptum mínum við þá. Jafnvel Frissi fríski. Versta viðurnefnið hlaut ég þó um daginn þegar ansi ungur boltapiltur ruglaðist hresslega í ríminu og kallaði mig Klóa. Það særði.

Læt ég þetta nægja í bili af rannsóknum mínum um nöfn mannanna.