KEF – III. HLUTI
Nói þótti æði ráðagóður þessa stundina, æddi út aftur og sagði: “Nú skulum við drekka í okkur næturlíf Keflavíkur!”. Eins og vangefnar hýenur eltum við Janni hann upp í næsta leigubíl. Þar var spurt: “Hver er heitasti staðurinn í bænum?”. Og skömmu síðar skilaði fjörgamall bílstjórinn okkur á heitasta stað Keflavíkur það kvöldið, nefnilega Duushús. Við fengum okkur bjór og kaffi. Ekki veitti af að vera með öll skilningarvitin í lagi þegar stórborg eins og Osló beið okkar. Menn rembuðust við að meðtaka koffínið og þykjast geðveikt vakandi. Pleisið var pakkfullt og við kannski pínu smeykir við ansi framandi umhverfi. Þarna voru stelpur. Stelpur frá Keflavík. Og ein þeirra kom full og í stuttu pilsi til okkar. Talaði fullmikið fyrir minn smekk. “Úr bænum? Djöfull eruði sætir… Íhíhííí”. Janni, sem oftar en ekki hefur verið talinn okkar skynsamastur beit á agnið. Spurði hvort hún ætti kærasta. Hún átti kærasta. Spurði Janni hvað hann héti. “Jón Ingi”, sagði druslan. “Vá, rímar við aumingi”, svaraði Janni. Fór Janni svo og dansaði við gæruna. Á meðan ræddum við Nói málin. Sjálfur var ég dauðadrukkinn og hóf að ræða mál mín og einhverrar kvensu sem ég hafði verið í tygjum við. Málglaður reyndist ég og gjarn á smáatriðin. Nói var fullur samúðar. En svo þurftum við að bruna aftur á KEF. Við Nói röltum fram, ætluðum að pikka Jannann upp á leiðinni og fara út á völl er við sáum að Janni hafði lent í illræmdum slagsmálum við innfædda. Hafði verið laminn fyrir það eitt að dansa nokkur spor við áðurnefnda glyðru. Og það af Jóni Inga, kærasta hennar. Okkur leist ekki á blikuna og rifum Janna með á brott. Burt frá Duushúsi. Út á völl. Janni var með glóðarauga. Lífskrafturinn hafði líka verið dreginn pínulítið úr honum. Smá bömmer í gangi. En vart þýddi að láta einhver erkifífl úr Keflavík tjónka við samstöðunni og góða skapinu sem réði lögum og lofum. Og er út á völl var komið á ný var bjartsýnin allsráðandi í brjósti mér. Nú var það ég sem gekk fremstur að afgreiðslukvendinu og sagðist vera á leið til Osló. Nói stoppaði mig þó af í miðjum klíðum. “Gussi, ég held að ég sé orðið í smá fokki með peningamál… Veit ekki hvort ég nái að fara með ykkur til Osló…”. Mér var brugðið. Enda höfðum við Janni nokkurn veginn treyst á að Nói myndi lána okkur fyrir farinu. Vissum að hann ætti peninginn. Hann hélt áfram: “Kærastan var líka að hringja og… hún sagði að ef ég færi bara til útlanda sisvona væri þetta bara búið…”. Við Janni vorum brjálaðir. Ég stökk út og byrjaði að sparaka af öllum kröftum í ruslatunnu. Janni hné niður inni á stöð. Eftir góða stund fór ég aftur inn á fund þeirra. Þögnin var löng. Nói sagði svo: “Það kostar veit ég bara þúsara að taka Flæbössinn heim!”. Ég hljóp aftur út og sparkaði nú í súlu. Fór næstum að gráta. Við Janni vildum helst fara tveir út. En við vissum að við ættum ekki pening. Ekki nema við slægjum Nóa um lán. Einhvern veginn vissum við að örlög okkar voru að taka Flybössinn. Með öllum ógeðslegu túristunum í jöklaúlpunum sveiflandi helvítis landakortunum. Mér var litið á sjónvarpsskjáinn á vellinum. Þann sem greinir frá hvaða flug voru að koma og hver væru að fara og svona. Og ég bara starði vonsvikinn á helvítis skjáinn. Hugsaði hvað í andskotanum ég væri að gera í Keflavík. Hugsaði að nú væri rétti tíminn til að skipta um vini. En fyrst og fremst beindust hugsanir mínar að vinkonu minni á Kaffibrennslunni sem ég hafði fórnað á altari ævintýraþrár. Já, ég hugsaði um Helgu. Var litið á Janna. Sá að hann var ekki minna fúll en ég. Þetta var líka virkilega ljótt mar á fési hans. Í sömu andrá litum við Janni á Nóa sem virtist standa á sama um þetta ferðalag. Hann brosti kumpánlega og sagði: “Jæja, hann fer í bæinn eftir tvær!”.
<< Heim