miðvikudagur, apríl 20, 2005

KEF – II. HLUTI

Ég féllst á að panta annan bjór á meðan Janni róaði mig niður og Nói fór í símann. Seinna kom á daginn að hann var að hringja á Leifsstöð að tékka á flugi til Kaupmannahafnar. Kvöldið sigldi þó áfram og menn fóru að spjalla um ýmislegt annað en utanlandsferðir. Ég minntist til að mynda aftur á vinkonu mína á Kaffibrennslunni og svo ræddum við um dverga og hversu fyndið væri að sjá gormæltan dverg á einhjóli syngja Rabbabara-Rúnu. Ákveðið var þó að yfirgefa knæpuna og einhverra hluta vegna enduðum við næst á Litla andarunganum. Ég man að ég vildi fara á Dillon en strákarnir höfðu vinninginn. Drykkir voru pantaðir og málin enn rædd til hlítar. Einhvern veginn fannst mér samt eins og vinir mínir væru farnir að plotta einhvern óskunda á bakvið mig þó ég hafi látið sílkar hugsanir með öllu ósagðar. Stig ölvunar fór senn upp úr öllu valdi. Skyndilega stóð ég sjálfan mig að því að hoppa fram á klósett, taka upp símann og slá á þráðinn til títtnefndrar vinkonu minnar af Kaffibrennslunni. Ég hringdi tvisvar, ef ekki þrisvar áður en hún tók upp tólið. Var vinkona þá á einhverjum subbulegum dansstað ofar í bænum. Hún var þó hress með eindæmum og við mæltum okkur mót á Dillon seinna um kvöldið. Um leið og ég henti fram hverju fimmauragríni á fætur öðru í átt að kvendinu gjóaði ég augunum að vinum mínum sem virtust kukla dularfullar gjörðir á borðinu okkar á Litla andarunganum. Ég kveið því strax að heyra ráðagerðir þeirra.

En þær gat ég víst ekki flúið. Piltarnir tveir viðruðu á ný þá uppástungu að flytja partíið yfir á KEF, á flugstöð Leifs Eiríkssonar. Taka þar flugið til Köben, redda ódýrri gistingu og vera í glasi fram á mánudag eða þriðjudag. Ég faldi fés mitt í greipum mér.

Rökræður fóru fram. Ég barðist eins og ég gat, læddi inn sterkum punktum en var borinn ofurliði. Þeirra málstaður var sterkari. Auðvitað er ekki til tærri snilld en að fara beint úr bænum til Köben með kumpánunum. Ef ekkert markvert skilur eftir sig úr slíkri ferð er hugmyndin ein og sér í raun nóg. Nóg til að segja barnabörnunum frá. Sem dæmisögu um hvernig heimskt fólk hagar sér.
Tvær mínútur liðu og allt í einu vorum við staddir í leigubíl. Nói hafði sagt: “Ég splæsi í leigubíl. Ég tékkaði á því og það er enginn rúta á leiðinni”. Við sögðumst ætla að splæsa á hann litlum Carlsberg á Strikinu. Leigubílstjórinn var kátur. Hotel California var í útvarpinu. Við vorum á leið til útlanda. Það var sungið: “Plenty of room at the Hotel California. Any time of year (any time of year), you can find it here.” Leifur heppni blasti þá við okkur. Nói borgaði brúsann og hvínandi hugur var í föruneytinu. Menn óðu inn á flugstöðina sem reyndar var galtóm, eiginlega beint inn á einhverja skrifstofu þar sem Nói var manna ágengastur: “Þrjá miða með fyrsta flugi til Köben”. Við Janni brostum hýrir á brá til afgreiðslukvennanna sem litu stórum augum á okkur. En ekki vorum við hýrir lengi. Kom á daginn að enginn var að fljúga neitt til Köben. Og þegar flugin voru skönnuð var Osló eftir þrjá tíma eina lausn okkar bræðra. Nói leit til baka á okkur og sagði svo hátt og snjallt: “Osló skal það verða!”. Samt ákváðum við að borga ekki á staðnum heldur seinna um nóttina af einhverjum ástæðum.