fimmtudagur, október 06, 2005

Sjónvarpsbörnin

“Keep you doped with religion and sex and tv
and you think you're so clever and classless and free
But you're still fucking peasants as far as I can see”

Það ætlaði allt um koll að keyra. Allir í skólanum voru að tala um nýja þáttinn sem slegið hafði svona rækilega í gegn í Ameríku. Maður taldi niður dagana og ég vissi einhvern veginn að þetta yrði stór stund. Svolítið eins og sigur barnanna á þeim fullorðnu. Í fyrsta sinn var sýnd teiknimynd eftir fréttir. Fullorðna fólkið hristi auðvitað hausinn yfir þessu en við bróðir minn vorum sigri hrósandi. Loksins barnaefni á præmtæm, laugardagskvöldi eftir fréttir. Eftir fréttir! Við sátum límdir fyrir framan gamla Hitachi sjónvarpsgarminn með paprikusnakk og RC-kóla. Senn rann stundin upp, lag byrjaði og undurfögur rödd heyrðist syngja: “thee Simpso-o-ns...”.

Þátturinn var um geðsjúka barnapíu sem fengin var til að passa Bart, Lísu og Maggie. Við vissum einhvern veginn að þessi stund markaði tímamót. Yrði upphafið að langri vináttu. Okkur leið eins og sigurvegurum.

Þegar maður varð eldri lærði maður þættina nánast utanbókar. Stúderaði líka Staupastein, Seinfeld, Vistaskipti, the Cosby Show, Sledge Hammer og í raun alla þá þætti sem teknir voru til sýninga.

Amerísk imbakassamenning er órjúfanleg æsku minni. Samofin félagsmótun minni. Ég er amerískt sjónvarp og amerískt sjónvarp er ég. Saman eigum við ýmsar minningar, höfum upplifað ógleymanleg atvik, óborganleg samtöl og gengið í gegnum súrt og sætt.

Hvort þetta er gott eða slæmt veit ég ekki.